144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

túlkasjóður.

[11:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil byrja á því að segja að þetta mál á sér nokkra forsögu. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var tekin sú ákvörðun að hækka laun þeirra sem starfa að túlkaþjónustunni allverulega og má vel færa rök fyrir þeirri ákvörðun, en það láðist hjá sömu ríkisstjórn að tryggja það að fjármagn fylgdi þeirri ákvörðun. (Gripið fram í: Þú ert búinn að hafa tvö ár til að …) Síðan var í tíð þessarar ríkisstjórnar gripið til þeirra ráðstafana að leiðrétta það og stóraukið var við fjármagn til sjóðsins til að hann gæti þá borgað hærri laun og er núna í þeirri stöðu að veita þjónustu í jafn margar klukkustundir og var áður fyrir þá hækkun sem var ófjármögnuð af síðustu ríkisstjórn. Þannig hefur núverandi stjórnarmeirihluti brugðist við þessu máli. Tel ég að það sé mun betra verklag en það sem var hjá síðustu ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Hafandi mætt þessu með því að auka framlög til sjóðsins er alveg ljóst að það er áfram meiri eftirspurn eftir þessari þjónustu en fjármagn er til. Búið er að taka þá ákvörðun í samráði við sjóðinn að til að koma í veg fyrir að þurrð verði um mitt tímabil, eins og hefur verið eða að hausti eins og var í fyrra, verði reynt að jafna útgjöld í sjóðnum yfir tímann eða yfir árið þannig að sú staða komi ekki upp.

Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum sem snúa að okkar félagsþjónustu væri vitanlega alveg hægt að sjá fyrir sér meiri fjármuni, vissulega, virðulegi forseti, og er þetta ekki eini staðurinn þar sem sú staða er uppi. Það er sjálfsagt mál að við höldum áfram að vinna að þeim þáttum. Það er sjálfsagt mál að við höldum áfram að vinna að því hvernig við getum sem best tryggt stöðu sjóðsins. En ég vil líka minna hv. fyrirspyrjanda á það að umtalsvert starf er unnið í skólakerfi landsins þegar kemur að túlkaþjónustu (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) sem fellur undir mitt ráðuneyti og er starfsemi (Forseti hringir.) sem fer fram í skólum landsins. En (Forseti hringir.) það er ekki svo, virðulegi forseti, að þetta sé eina þjónustan sem er veitt í gegnum þennan sjóð, það er umtalsvert mikil þjónusta sem veitt er vegna þessara mála.