144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

túlkasjóður.

[11:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála hv. þingmanni hvað það varðar að bæði í þessu máli og svo fjölmörgum öðrum sem snúa að þeim möguleikum sem fólk hefur til að taka þátt í þjóðlífinu og stendur frammi fyrir skertum möguleikum, þá erum við auðvitað öll sammála um það að við viljum gera sem mest og best til að tryggja þá þátttöku. Það er víða pottur brotinn í samfélagi okkar hvað það varðar. Þetta er ekki eini staðurinn eða eina verkefnið sem við stöndum frammi fyrir.

Ég ítreka að nú þegar er um að ræða verulega þjónustu í skólakerfinu þar sem verið er að veita túlkaþjónustu. Það er þess vegna rangt sem stundum er haldið fram að þetta sé eini staðurinn sem slík þjónusta er veitt, en vitanlega er þetta önnur þjónusta og önnur tegund. Ég vil bara árétta þetta. Svo vil ég segja, virðulegi forseti, að menn geta borið saman fjárframlög sem núverandi stjórnarmeirihluti hefur veitt til þessa málaflokks og þau fjárframlög sem voru á síðasta kjörtímabili.