144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

afskipti ráðuneytis af skipan stjórnarformanns fjármálafyrirtækis.

[11:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi gjaldeyrishaftamálin, eigum við ekki spyrja að leikslokum í því máli? Á það að koma einhverjum á óvart að það þurfi að vanda sig og menn þurfi að hlusta á ráð ráðgjafa og að menn þurfi ef til vill að gera breytingar á áformum sínum eftir því sem bestu manna ráð gefa tilefni til? Það kemur mér á óvart ef mönnum þykir það eitthvað skrýtið. Það hefur ekkert með það að gera að menn hafi haft óraunhæfar væntingar, þetta snýst bara um hvað gagnast best í efnahagslegu tilliti og heldur best út frá lögfræðilegu sjónarmiði.

Varðandi umsögn Bankasýslunnar til Alþingis vil ég í fyrsta lagi segja almennt um slíka umsögn að það kemur ekki á óvart að þegar fram kemur tillaga um að leggja niður stofnun að viðkomandi stofnun hafi við það einhverjar athugasemdir, það finnast mér ekki vera nein nýmæli fyrir okkur á þinginu.

Varðandi samskipti ráðuneytisins og Bankasýslunnar um sameiningu Sparisjóðs Bolvíkinga við sparisjóðinn fyrir norðan get ég staðfest það sem áður hefur komið fram að lýst var miklum áhyggjum við mig persónulega vegna þess hvernig staðið væri að undirbúningi þeirrar sameiningar. Mér fannst sjálfsagt og eðlilegt að því yrði komið á framfæri við Bankasýsluna. Í því fólust ekki nein tilmæli þegar ráðuneytisstjóri Fjármálaeftirlitsins kom þessum upplýsingum á framfæri vegna þess að ef illa hefði farið þá hefði einfaldlega ekki getað orðið af sameiningunni. Menn eru nú komnir býsna langt frá kjördæmum sínum og tengslum við fólkið í landinu ef það er orðinn glæpur og brot á lögum að koma sjónarmiðum fólksins í landinu á framfæri við stofnanir okkar.