144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að við Íslendingar ættum að leita leiða til þess að þeir umhverfisvænu bílar sem hér aka um göturnar geri það á grundvelli þess orkugjafa sem við framleiðum sjálf, sem er að sjálfsögðu rafmagn, þannig að við förum ekki að flytja inn einhverja aðra umhverfisvæna orkugjafa til þess að sinna því verkefni. Það finnst mér vera nú það fyrsta. Svo er það auðvitað grundvallaratriði að með þeim vexti verður ákveðin mismunun fyrir hendi, við henni þarf að bregðast. Það er akkúrat það sem ég vil líta til og var að segja í mínu fyrra andsvari, það þarf að líta á þetta mál allt saman heildstætt. Ég get ekki sagt að ég sé búin að finna upp stefnuna í því máli, en það er alveg ljóst að til lengri tíma verður ekki hægt að láta tímann bara líða án þess að eitthvað sé að gert. Þess vegna tel ég brýnt, núna þegar litið er til langtímastefnu á sviði samgöngumála, að menn gleymi ekki því mikilvæga atriði að þetta þarf allt saman að fjármagna og peningarnir vaxa ekki á trjánum.