144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

afgreiðsla umhverfis- og samgöngunefndar á frumvarpi um Reykjavíkurflugvöll.

[10:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Maður hlýtur að spyrja hæstv. forseta: Er þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar? Vill stjórnarmeirihlutinn eyða tíma í þetta? Við erum með beiðni frá hæstv. umhverfisráðherra um að fresta náttúruverndarlögunum annað árið í röð vegna þess að umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki getað lokið málinu. Við eigum að fara að fjalla um það hér á síðustu dögum að fresta þeim aftur annars taka gömlu lögin við 1. júlí. Við erum með samgönguáætlun sem fór í umræðu á föstudaginn og á að afgreiðast sem fjögurra ára lögboðin samgönguáætlun og á að fjalla um í nefndinni. Þessu máli er kippt inn. Við sitjum í nefndum og eigum að vera í allsherjar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og ég sem varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd, allt á sama tímanum. Eigum við ekki að loka þessu þingi í nokkra daga og reyna að sortera hvað við ætlum að klára? (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Við klárum þetta ekkert fyrr en í september. Við klárum þetta ekki núna, það er útilokað. Þessi vinnubrögð eru stríðsyfirlýsing. Ég er einn af þeim sem hafa verið stuðningsmenn þess að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni, en ég er aldrei stuðningsmaður (Forseti hringir.) þess að fara fram með ofbeldi af þessu tagi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)