144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fjármögnun aðgerða vegna kjarasamninga og skýrsla um skuldaleiðréttingu.

[10:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er þingi lokið miðað við starfsáætlun og útspil ríkisstjórnarinnar líta samt sem áður ótt og títt dagsins ljós, m.a. til liðkunar kjarasamningum, eins og hér hefur verið farið yfir. Þó hefur ekki verið sýnt fram á hvernig fjármunirnir eiga að koma til til að fjármagna þessar aðgerðir. Í ljósi þess er aðgerð ríkisstjórnarinnar, hin stærsta, heimsmetið svokallaða, skuldaniðurgreiðslan, hluti af því sem hefur verið fyrir fram fjármagnað af þeim tekjum sem ráðherra hefur hér farið yfir.

Mig langar til þess núna að spyrja hvort hæstv. ráðherra hyggst svara þeim spurningum sem við Katrín Jakobsdóttir höfum lagt fyrir og hafa beðið síðan í nóvember þar sem var meðal annars spurt hvernig heildarupphæðin af skuldaleiðréttingunni skiptist til lækkunar verðtryggðra fasteignalána einstaklinga milli höfuðstólslækkunar og frádráttarliða. Spurningarnar voru mjög margar. Þær voru einar 15 frá Katrínu, það er búið að svara fimm að mér sýnist. Ég var síðan með aðrar fjórar. Það átti að koma skýrsla á vordögum, á vorþingi. Nú er vorþingi formlega lokið þó að við séum hér enn. Því er vert að spyrja hvort hæstv. ráðherra sjái það fyrir sér að hann komi hingað inn á þeim dögum sem hann telur að séu eftir af þinginu og svari þeim spurningum sem við höfum beðið ansi lengi eftir um þá umdeildu aðgerð sem skuldaleiðréttingin er.