144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fjármögnun aðgerða vegna kjarasamninga og skýrsla um skuldaleiðréttingu.

[11:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Það kemur einmitt í ljós enn frekar að hér var farið út í risavaxna aðgerð án þess að menn hefðu fyrir framan sig afleiðingar hennar, þ.e. hvernig hún skiptist, hverjum hún kæmi best. Það hafa verið afar skiptar skoðanir um það. Það er vel ef ráðherrann telur að hann geti komið fram með þetta en eins og hann segir, ef bíða þarf álagningar, erum við þá að tala um að þessi skýrsla verði ekki flutt fyrr en á haustdögum? Þá verður liðið næstum því ár frá því að fyrirspurnin var lögð fram og svolítið langt síðan að aðgerðin fór í loftið.

Það má væntanlega spyrja sig, virðulegi forseti, í sambandi við þessa 5 milljarða sem hæstv. ráðherra vísaði í vegna lækkunar tryggingagjalds í ríkisfjármálaáætluninni, hvort það sé búið að ákveða að tryggingagjaldið verði ekkert lækkað á því fjögurra ára tímabili sem ríkisfjármálaáætlunin nær yfir.

Ég vænti þess svo að ráðherrann komi á fund fjárlaganefndar og kynni þær aðgerðir (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin var að (Forseti hringir.) spila út því það var ekki eins og það væri (Forseti hringir.) verið að tala um eitthvert smáræði. Það var verið að sveifla út húsnæðisstuðningi sem jafnast á við sveitarfélag mitt í formi fjölda íbúa.