144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lengd þingfundar.

[11:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar um það að við eigum að reyna að finna lausnir saman. Það að setja á fund sem er ótímasettur eru mjög skringileg vinnubrögð. Hvergi annars staðar væru slík vinnubrögð álitin heilbrigð eða til þess fallin að ná sáttum um eitthvað. Það er bara veruleikinn. Það er mjög vont að koma inn í svona stríðsandrúmsloft trekk í trekk. Hingað eru komnar mjög skarpar fylkingar og tillaga um að setja á ótímabundinn kvöldfund er ekki til þess að liðka fyrir. Það er bara þannig. Mér finnst það skrýtið, og það mundi örugglega mörgum öðrum finnast það skringilegt, að þeir þingmenn sem greiða atkvæði um að við séum í kvöld að ræða til dæmis mjög umdeilt mál greiði atkvæði með því en séu svo ekki til staðar þegar umræðan um málið á sér stað. Mér finnst það undarleg vinnubrögð (Forseti hringir.) og öllum öðrum í samfélaginu finnst það undarleg vinnubrögð. Við þurfum að breyta þessu.