144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fann mig knúna til að koma hér upp af því að það er vissulega munur á auglýsingum í prentmiðlum annars vegar og hljóð- og myndmiðlum hins vegar. Hljóð- og myndmiðlar nýtast talsvert betur fyrir það sem við getum kallað ímyndarauglýsingar. Mér finnst í þessu máli að hv. þingmenn ættu að hlusta eftir varnaðarorðum landlæknisembættisins þar sem bent er á að tilgangur með þessum auknu auglýsingum er að sjálfsögðu að auka lyfjanotkun í landinu sem er nú ærin fyrir. Ég held að hv. þingmenn ættu að velta fyrir sér hver tilgangurinn er nákvæmlega með því að hleypa kynningum á lyfjum með þessum hætti inn á þennan markað og hlusta eftir þeim sem vara við, þeim sem eru sérfræðingar í þessu máli.