144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[12:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að benda á þetta. Í 10. gr. eru viðurlög við því að brjóta þessi lög og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Brot varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum sem eru síðan tiltekin. Þetta sama ákvæði er í lögum um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni. Þar er verið að setja inn fangelsisákvæði, ég veit ekki hvort það er eftir tvö eða þrjú ár. Ég er einmitt með breytingartillögu við það mál um það að við þurfum virkilega að skoða hvort það eigi að vera að setja fangelsisrefsingar inn í svona lög, fólksflutninga á landi í atvinnuskyni og sinubruna. Ég vil að þetta verði sérstaklega vel skoðað í nefndinni á milli 2. og 3. umr. Við þurfum virkilega að gjalda varhuga við því að setja fangelsisrefsingar við svona brotum og ég vil að það verði sérstaklega skoðað.