144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það verður að teljast nokkur ágalli hversu seint þetta mál er fram komið. Það er 1. júní í dag, það eru þrír dagar liðnir frá því að Alþingi átti að ljúka störfum og þá erum við fyrst að taka til fyrri umræðu þessa tillögu, sem er mjög mikilvæg. Hún varðar bæði umtalsverða hagsmuni, ráðstöfun á verulegum veiðiheimildum upp á 5,3% af heildarveiðiheimildum á Íslandsmiðum, og viðkvæma og vandasama byggðahagsmuni.

Það var óskað eftir að minnsta kosti staðgengli hæstv. sjávarútvegsráðherra eða starfandi sjávarútvegsráðherra, í ljósi þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson er erlendis hlýtur að vera einhver sem gegnir fyrir hann. Þannig er búið um okkar stjórnskipun að um leið og ráðherra yfirgefur fósturjörðina ber að færa ábyrgðina yfir á herðar annars sem er til staðar í landinu og ég hefði talið það kost ef sá hæstv. starfandi sjávarútvegsráðherra hefði verið mættur til umræðunnar. Það verður varla talin óbilgirni af hálfu stjórnarandstöðunnar ef hún sættir sig ekki við að umræðunni verði fram haldið án þess að hér sé nokkur ráðherra eða formaður atvinnuveganefndar eða yfir höfuð nokkur til að svara fyrir málið, en þannig sýnist mér ástandið vera í þingsalnum.

Í þriðja lagi, og það hefði verið áhugavert að hafa ráðherra til að svara fyrir það, er í greinargerð með tillögunni á bls. 3 rökstutt að vegna þess að frekari úttektir vanti og af fleiri ástæðum hafi eins og þar segir, með leyfi forseta: „Í ljósi þessa var ákveðið að gera tillögu að ráðstöfun heimildanna til næsta fiskveiðiárs eingöngu.“ Þá skyldi maður ætla að tillagan væri þannig fram sett að það væri ljóst að hér væri eingöngu verið að leggja til ráðstöfun þessara veiðiheimilda á tilteknum grunni til eins árs, en þannig er tillagan ekki úr garði gerð, frú forseti. Tillagan hefst með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, að á fiskveiðiárunum 2015/2016 til 2020/2021 skuli því aflamagni sem dregið er frá heildarafla …“ — O.s.frv.

Tillagan gengur út frá að ganga frá þessu í fjögur eða fimm ár og er þar af leiðandi ósamræmi milli tillögugreinarinnar og greinargerðarinnar. Það er tillögugreinin sem að sjálfsögðu ræður þannig að hér hefur einhver handvömm átt sér stað ef við eigum að taka það gilt að það sé hins vegar efnislega það sem menn ætli sér sem stendur í greinargerðinni, að ganga eingöngu frá þessu til eins árs, en þá verður auðvitað að endurskrifa tillöguna að því leyti. Hún kann að vera arfur úr eldri pappírum þar sem menn voru enn með metnað til að ganga frá þessu til fleiri ára. En nú er sem sagt það boðað í greinargerð með tillögunni, og ég hygg í framsöguræðu ráðherra, að meiningin sé að ganga aðeins frá því til eins árs en engu að síður er tillagan þannig að því væri lokað til og með fiskveiðiárinu 2020/2021 ef þetta yrði samþykkt óbreytt.

Í fjórða lagi vil ég að sjálfsögðu fagna því að strandveiðarnar eru þarna áfram með um það bil óskertan hlut af þessari ráðstöfun, þ.e. það er þá miðað við töfluverkið hér um 8.600 tonn upp úr sjó eða rúm 700 þorskígildi sem til strandveiða verður varið á næsta fiskveiðiári. Það er gott vegna þess að við vitum auðvitað af áformum eða áhuga á sjónarmiðum í stjórnarflokkunum, a.m.k. öðrum þeirra, að hjóla í strandveiðarnar, sem ég teldi stórslys, ég tel að þær hafi sannað gildi sitt og vel það og þvert á móti er það þannig að það berast okkur ályktanir frá sveitarstjórnum um að auka verulega við strandveiðarnar og menn færa fyrir því ágæt og gild rök. Ég held að þeir sem eru í sjávarbyggðunum séu dómbærastir á það hversu mikilvægar þær hafa verið í raun og veru á strandlengjunni hringinn í kringum landið, því að það finnst varla löndunarstaður eða útgerðarstaður þar sem eru ekki a.m.k. einn eða nokkrir strandveiðibátar og upp í tugir þar sem vinsælast hefur orðið að gera út.

Á fjölmörgum litlum stöðum þar sem satt best að segja var orðið ákaflega dauflegt í höfnunum, sást kannski bátur einu sinni í viku eða jafnvel ekki það, er núna talsvert líf og það hefur margt í för með sér. Menn eru hér að vitna í hagfræðiskýrslur um að arðsemin sé ekkert sérstaklega mikil. Ég bið menn að hafa ekki of miklar áhyggjur af því, frú forseti. Það neyðir enginn nokkurn mann til að fara á strandveiðar en menn gera það samt, væntanlega vegna þess að þeir hafa a.m.k. í sig og á, skapa sér atvinnu og tekjur og eru ekkert endilega að biðja um mikið meira. Menn eru ekki endilega á höttum eftir einhverjum stórgróða à la stórfyrirtæki. En að geta stundað sjóinn og haft til þess frelsi, eins og þarna er boðið upp á, er mjög dýrmætt af mörgum ástæðum.

Ég bendi á það að þetta er opið lag neðst í útgerðinni. Það er opið. Það getur hver sem er, sem hefur leyfi til að fara með bát og kemur sér honum upp, farið á strandveiðar og það mun stjórna sér sjálft. Ef fjöldinn verður of mikill dregur auðvitað úr magninu til hvers og þá verður ásóknin minni að ári o.s.frv. Sama gildir um arðsemina. Ef hún verður ekki mjög eftirsóknarverð nema fyrir þá sem ná bestum tökum á þessu þá dregur væntanlega úr sókninni og hagur hinna vænkast, sem ná tökum á því og halda áfram. Það liggur í eðli máls að þetta mun stjórna sér sjálft, regúlera sig sjálft og þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Það er meira okkar hlutverk að leggja mat á það hversu mikið þarf að vera í þessum potti til að þetta gagnist í þeim skilningi sem því var ætlað að gera.

Þetta er líka gríðarlega mikið frá sjónarhóli þess að þarna eru vissir gluggar inn í greinina. Þetta getur verið fyrsta skrefið í átt að endurnýjun og uppeldi nýrra sjómanna og nýrra útgerðarmanna, eins og slíkir hafa yfirleitt alltaf í Íslandssögunni vaxið upp, þeir hafa byrjað smátt og stækkað við sig ef vel gengur. Þannig hefur uppeldið yfirleitt verið og þannig á það að vera. Ég tel því að ef eitthvað er, og tek undir það sem kom aðeins fyrr fram í umræðunni, mætti leita leiða til að auka betur í strandveiðarnar.

Þá vil ég sérstaklega fagna því að það er aukið nokkuð svigrúm Byggðastofnunar til að ráðstafa byggðafestukvóta í byggðarlög í vanda, í brothættar byggðir eða í sjávarbyggðir í vanda í því skyni að treysta þar byggð og skjóta stoðum undir fiskvinnslu og útgerð. Um 1.000 þorskígildi bætast þá við í svigrúm Byggðastofnunar og það er efnað í það með annars vegar því sem tekið er niður í rækju- og skelbótum og hins vegar hinum hefðbundna byggðakvóta eins og við þekkjum hann og höfum þekkt á umliðnum árum. Ég tel að reynslan af byggðafestukvóta Byggðastofnunar sé góð. Ég veit að það er þörf fyrir hann víðar, því miður, og brýn þörf á ákveðnum stöðum, þannig að það leiðir ekki af því að þetta svigrúm, ef eitthvað er, þyrfti ekki jafnvel að vera meira, þótt auðvitað séu 1.000 þorskígildi umtalsverð framför. Það þýðir að afli upp úr sjó fer úr um 3.400 í 4.600–4.700 tonn, sem er verulega jákvætt. Að því þarf síðan að hlúa með því að standa vel við bakið á Byggðastofnun í starfrækslu þeirra verkefna og það er auðvitað brýnt að þessi tillaga fái svo framgang hér, því að það styttist í upphaf næsta fiskveiðiárs. Það er líka mikilvægt að Byggðastofnun til dæmis viti að hverju hún gengur í þeim efnum strax í upphafi næsta fiskveiðiárs, þannig að hún geti notað tímann fram á haustið til að leggja drög að þeim verkefnum sem hún væntanlega bætir þá við í sarpinn á næstunni.

Þá vil ég aðeins nefna hefðbundna byggðakvótann sem því miður hefur dregist úr hömlu að endurskoða. Það er algerlega ljóst að hann nær ekki tilgangi sínum í allt of ríkum mæli. Vissulega er það þannig að sums staðar hefur tekist vel til að spila úr honum og í ágætissamstarfi, án þess að nefna nöfn þekki ég dæmi um staði þar sem menn hafa samþykkt að nota byggðakvótann fyrst og fremst innan viðkomandi sveitarfélags til að hlúa að nýjum aðilum í útgerð. Í öðrum tilvikum hafa menn breytt honum í raun í uppbóta- og landaðan afla til vinnslu í viðkomandi sveitarfélagi, þannig að menn hafa eftir á fengið hlutdeild í byggðakvótanum gegnum það að hafa lagt upp og landað afla til vinnslu og það er auðvitað gott fyrirkomulag. En í of mörgum tilvikum fer þetta aðra leið, að menn fá undanþágu frá löndunarskyldunni og byggðakvótinn breytist í kapphlaup um að fá að veiða hann og aflanum er síðan ráðstafað í allt öðrum tilgangi en menn hefðu helst viljað sjá.

Að lokum skiptir svo máli hvað verður til ráðstöfunar í þessar byggðalegu og félagslegu hliðarráðstafanir í kerfinu. Það er að sjálfsögðu framför ef litið er nokkur ár aftur í tímann að við höfum núna tryggar 5,3% af heildarveiðiheimildunum. Þökk sé breytingum sem urðu á síðasta kjörtímabili er þetta miklu meira magn en var þar á undan og munar þar miklu að strandveiðarnar hafa í heild sinni bæst þarna við auk þess sem kvótinn hefur verið aukinn til dæmis í byggðakvóta. En ég tel að til framtíðar litið sé þetta hlutfall enn of lágt og það sé engin goðgá að 8–10% af heildarveiðiheimildunum (Forseti hringir.) séu teknar til hliðar og þeim ráðstafað með þessum hætti og að mínu mati gæti það lagt grunn að mun meiri og breiðari samstöðu um þetta kerfi en er í dag.