144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[15:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að ganga frá þessu til eins árs núna þá er ég alveg sammála því, ég held það hefði verið óráðlegt að fara að festa það til lengri tíma og í raun ekki forsendur til þess. Þá er ég ekki bara með það í huga að menn ætli að bíða frekari greininga á því hvernig þessar ráðstafanir, hver um sig, virka í viðbót við það sem komið er eins og úttekt á verkefninu Brothættar byggðir. Ég bendi líka á að meðan engin heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða hefur náðst í gegn þá er kannski svolítið óeðlilegt að fara að gefa sér hvernig þetta verði fest ein sex ár fram í tímann. Að vísu hefur alltaf staðið til að rúlla einhverri endurskoðun á því á þriggja ára fresti, ef ég man rétt, og það er kannski aðallega einn þáttur í þessu sem þarf að vera fyrirsjáanleiki í, það er aflamark Byggðastofnunar. Það væri hægt að ganga þannig frá þessu að menn segðu sem svo: Þetta er til ársins, en þó er það þannig að Byggðastofnun mun að lágmarki hafa þetta aflamark næstu þrjú til fimm árin, hún þarf að vita það af því byggðafestukvótinn byggir á því að hægt sé að festa hann inn í samninga til þriggja til fimm ára þar sem menn eru að styðja við bakið á fiskvinnslu í erfiðleikum o.s.frv.

Það þyrfti kannski að huga að því í meðförum nefndarinnar hvort að einhverju leyti yrði, með yfirlýsingu eða með einhverjum hætti, sköpuð meiri festa og fyrirsjáanleiki varðandi þann þátt.

Samráðið — að sjálfsögðu er alltaf gott að menn tali sem mest saman og undirbúi hlutina í samstarfi. Veruleikinn er nú sá að þrátt fyrir gríðarleg átök oft hér um sjávarútvegsmál og fiskveiðistjórn þá hefur nú gengið mun betur þegar komið hefur að því að bræða saman samkomulag um útfærslur á þessum hliðarráðstöfunum. Eins og ég les í það hafa þær deilur ekki verið eins harðar. Þá hafa togast á hagsmunir og menn hafa ekki alltaf verið allir sáttir, en í aðalatriðum hefur það kerfi — strandveiðarnar, byggðakvótinn, Byggðastofnunarkvótinn núna — þroskast í sæmilegum friði hérna og á að geta gert áfram. Af því að allir sem til þekkja (Forseti hringir.) viðurkenna þörfina þar.

Úttektir hagfræðinga og skýrslur eru fínar. En svo hefur maður talsvert tilfinningu líka fyrir þessu sjálfur bara með því að fylgjast með framganginum í einstökum sjávarbyggðum.