144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta er eiginlega fáránlegt leikrit sem við erum í, mér finnst þetta óboðlegt. Enn eru í gangi mjög alvarleg verkföll sem hafa mjög mikil og alvarleg áhrif í samfélaginu. Á meðan boða formenn flokkanna til fundar, loksins, eftir að starfsáætlun lýkur, og bjóða okkur upp á ekki neitt. Ekki neitt, nema lista með öllum málum. Eins og hv. þm. Róbert Marshall benti á þá höfum við þingmenn aðgang að internetinu og við kunnum að prenta sjálf út svona lista.

Ég legg til að forseti hirti aðeins þá pilta sem stjórna landinu og hafa ekki sýnt þinginu þann sóma að koma með boðlega tillögu að því hvernig við leysum úr þeim vanda sem þingið er í í dag. Ég legg til að forseti taki sér það vald sem forseta ber að gera þegar í svona óefni er komið.