144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu. Hún talaði, eins og fleiri í Samfylkingunni og Bjartri framtíð, fyrir svokölluðum markaðsleiðum en tekur samt fram að hún telji að taka eigi tillit til byggðasjónarmiði. Nú er þessi hluti af úthlutuðum aflaheimildum, 5,3%, kannski ekki nægur og mörgum þykir sem auka þyrfti hann miðað við það sem hann er í dag. Restin af kerfinu er óheft markaðskerfi í raun eins og hv. þingmaður kom inn á. Aflaheimildir ganga kaupum og sölum á milli aðila og hægt er að fara með þær á einni nóttu út úr byggðarlögum og ekkert er skilið eftir annað en íbúarnir og fjárfestingar sem þeir hafa lagt í og menn standa berskjaldaðir.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart afleiðingum og svörtum hliðum óheftrar markaðshyggju í þessu sem svo mörgu öðru þar sem við teljum að horfa verði til ýmissa annarra sjónarmiða en þess eins að ná hagkvæmni út úr greininni. Hagkvæmni fyrir hverja? er þá spurt. Fyrir hluthafa stórra fyrirtækja? Arðurinn rennur þá kannski í vasa þeirra að mestu í stað þess að dreifast um landið og til íbúa sjávarbyggða sem hafa byggt upp heimili sín og fyrirtæki og annað í kringum sjávarútveginn en hafa ekkert vald yfir því hvernig fjármagnið stjórnar ferðinni varðandi aflaheimildir þegar þær ganga kaupum og sölum.

Ég veit að kannski er stórt spurt. En hvað telur hv. þingmaður að hægt sé að gera til að tryggja eitthvert jafnvægi í þessum efnum?