144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Hv. þingmaður þekkir vel til þessara mála veit ég, verandi þingmaður í kjördæmi þar sem er töluvert af hinum brothættu byggðum. En mig langar aðeins að spyrja um annan þátt og hann snýr að makrílnum. Ég þarf ekki að taka fram hver afstaða okkar jafnaðarmanna er gagnvart því hvernig eigi að standa að úthlutun makrílkvótans og þá er ég ekki síst að vísa til þess frumvarps sem núna er í atvinnuveganefnd, hins vægast sagt umdeilda frumvarps þar sem ætlunin er að gefa makrílkvótann eina ferðina enn og sagan er að endurtaka sig hvað varðar það hvernig þeir flokkar sem nú sitja við stjórnvölinn hafa gert þetta í gegnum tíðina. Við jafnaðarmenn erum afar andsnúin því, við viljum að þetta verði boðið upp til að við getum fengið á þetta rétt verð, þ.e. þjóðin sem er eigandi þessarar auðlindar.

Hér í lið 8 í þessari þingsályktunartillögu er fjallað um það að aflaheimildir í makríl verði seldar á ákveðnu kílóverði til báta undir 30 brúttótonnum og þá innan ársins. Það kemur líka fram að þessar heimildir verði ekki færanlegar á milli báta. Það fær mann til að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé vegna þess að í makrílfrumvarpinu svokallaða eru aflaheimildirnar framseljanlegar, en í þessum hluta eru þær það ekki, þ.e. til minni báta. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna hún telji að þessi mismunur sé á aðferðafræðinni, þ.e. hjá minni bátum séu heimildirnar ekki framseljanlegar en hjá hinum stærri séu þær framseljanlegar, hvort hún átti sig á því hvers vegna þessi mismunur sé.