144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er að mörgu leyti jákvæð og hún slær stoðum undir smærri byggðir við sjávarsíðuna og með öðrum tillögum er líka leitast við að grípa inn í þegar sjávarbyggðir hafa orðið fyrir áföllum.

Mig langar að ræða aðeins 8. liðinn þar sem fjallað er um aflaheimildir í makríl og þær verða seldar á ákveðnu kílóverði o.s.frv., það er farið yfir þetta í tillögunni í tveimur liðum, a- og b-lið. Þarna finnst mér vera upplagt tækifæri til að fara tilboðsleið eða uppboðsleið með þann hluta eða gera að minnsta kosti tilraun í þá átt. Þess vegna vil ég að fulltrúar í atvinnuveganefnd hafi með sér til að fjalla um þetta mál stefnu Samfylkingarinnar þegar kemur að úthlutun auðlinda þjóðarinnar.

Við höfum nefnilega undanfarið verið hressilega minnt á það að í stjórnarskránni okkar er ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindunum og hvergi stafur um að þjóðinni sé tryggt fullt gjald fyrir afnot af auðlindunum. Það er sömuleiðis ekkert sem segir að ákveðinn fjöldi kjósenda geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Makrílkvótafrumvarpið sem nú er í atvinnuveganefnd og er þar til umræðu hefur sannarlega ýtt við okkur hvað þetta varðar. Auðvitað er ég ekki að bera makrílkvótafrumvarpið saman við þá þingsályktunartillögu sem við ræðum hér en hins vegar er ákveðið prinsipp sem er rétt að ræða þegar kemur að auðlind þjóðarinnar.

Þeir flokkar sem nú sitja við stjórnartaumana, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, börðust einmitt gegn því að slík breyting á stjórnarskrá næði fram að ganga á síðasta kjörtímabili og ég held að þeir hafi ekki gert það að ástæðulausu. Það er skortur á því ákvæði sem gerir þeim núna kleift að úthluta makrílkvótanum eins og þeir hafa hug á að gera. En í stefnu Samfylkingarinnar um stjórnarskrármál er lögð megináhersla á að áfram verði unnið að nýrri stjórnarskrá og til grundvallar þeirri vinnu verði lögð niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu frá því í október 2012, en þá var þjóðin spurð þessarar spurningar:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Þá sögðu já 84.760 kjósendur eða 83% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú hafa menn sagt: Það er ekkert að marka þetta vegna þess að kjörsóknin var svo lítil. Staðreyndin er hins vegar sú að jafnvel þó að kjörsóknin hefði verið 70% og allir þeir sem bættust við hefðu sagt nei við spurningunni þá hefði niðurstaðan samt verið sú að þeir sem sögðu já hefðu verið fleiri en þeir sem sögðu nei. Þessi niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslunni var því mjög eindregin og ég hef ekki orðið vör við að fólkið í landinu hafi skipt um skoðun. Það ætti að vera krafa okkar allra að á næstu dögum komi fram tillögur til breytinga á stjórnarskránni, það er sannarlega ástæða til þess, og þar verði talað um þjóðareign á auðlindunum með eignarhald almennings og sjálfbæra nýtingu í huga og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli undirskrifta eða samkvæmt kröfu minni hluta þingmanna. Þetta er ákaflega mikilvægt og ástandið núna og ný frumvörp kalla hreinlega á að við tryggjum þetta.

Í atvinnustefnu okkar í Samfylkingunni er rætt um sóknarfæri og sérstöðu íslensks atvinnulífs og að við ættum að nýta auðlindaarðinn til uppbyggingar. Það er vísað í skýrslu auðlindastefnunefndar frá árinu 2012 sem varðar veginn að sátt um okkar mikilvægu auðlindagreinar. En kjarninn í stefnunni er samræmd umsýsla auðlinda hvað varðar þætti á borð við úthlutun auðlinda, nýtingartíma og sanngjarna skiptingu auðlindaarðsins þannig að auðlindagreinarnar sjálfar fái að vaxa og dafna og hagræða og skila hámarksverðmætum. Og það er einnig bent á að sátt náist ekki um t.d. upphæð veiðigjalds fyrr en það verði ákvarðað á markaðslegum forsendum.

Tímalengd nýtingarleyfa er rædd í stefnu Samfylkingarinnar og bent á að þar vegist á sjónarmið um rekstraröryggi annars vegar og samkeppni og lýðræðisleg réttindi hins vegar og því þarf að skoða eiginleika hverrar greinar fyrir sig með eðli fjárfestinga í huga. Þar sem ákveðin landsvæði taka á sig fórnir vegna auðlindanýtingar eða eru sérstaklega háð henni er mikilvægt að þau njóti stærri hluta auðlindaarðsins en önnur landsvæði og það er ein forsenda sáttar í auðlindamálum og er í anda sjálfbærrar þróunar þar sem samfélagslegi þátturinn er einnig metinn mikils. Það má taka dæmi um sjávarbyggðir þar sem íbúar hafa tekið á sig afleiðingar og kostnað vegna hagræðingar í sjávarútvegi og það hlýtur að teljast sanngjarnt að sveitarfélög fái hluta auðlindaarðsins til atvinnuþróunar. En á sama hátt og jafnaðarmenn vilja að arður af sameiginlegum auðlindum skiptist á réttmætan hátt á milli þjóðar og nýtingaraðila þarf að tryggja réttláta skiptingu arðs af þjóðarauðlindunum milli kynslóða og það þýðir að nýting auðlinda hvort sem er til lands eða sjávar þarf að vera í samræmi við skilyrði sjálfbærrar þróunar.

Í stefnu Samfylkingarinnar er fjallað um allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og hvernig fara á með þær og hvað fiskveiðistjórn varðar er fjallað um það mikilvæga verkefni að skapa heilbrigðar leikreglur í framtíðarskipan með atvinnufrelsi, jafnræði og nýliðunarmöguleika að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Tíminn hleypur frá mér en mig langar í lokin að telja upp nokkra kosti tilboðsleiðarinnar sem ég vona að atvinnuveganefnd leggi til að farin verði, a.m.k. í 8. lið þingsályktunartillögunnar. Einn af kostum tilboðsleiðarinnar er að leigugjaldið sem greitt er fyrir aflahlutdeild sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Þannig byggist upphæðin ekki á matskenndum ákvörðunum og eigendur auðlindanna, fólkið í landinu, getur treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan. Útgerðin ákveður gjaldið sjálft, það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgengi að auðlindinni með tilboðum á markaði, og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum á milli kjörtímabila. Svigrúmið innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri hvort sem þau eru gömul eða ný. Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða.

Reynslan af tilboðsleiðum til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim og auðvelt væri að leita í smiðju nágrannaþjóða eftir góðum fyrirmyndum. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlæti sem felst í því að ávinningurinn af hagræðingunni innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en að íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn.

Virðulegi forseti. Ég kynnti mér um daginn sjávarútvegsstefnuna sem stjórnmálaflokkar í Færeyjum eru núna að bera fram en það verður kosið í Færeyjum í haust. Menn eru að draga upp stefnuna og allir flokkar í Færeyjum vilja tilboðsleið þegar úthluta á veiðiheimildum. Systurflokkur Vinstri grænna hefur til dæmis haldið því fram í tíu ár að það sé einmitt besta leiðin. Það er einn flokkur, þ.e. Fólkaflokkurinn sem vill ekki fara þá leið. En Færeyingar hafa áttað sig á mikilvægi þess fyrir eigendur auðlindarinnar að útgerðin bjóði í kvótann og það er veiðigjaldið sem þjóðin fær. Síðan gerir útgerðin sér mat úr þeim kvóta sem hún hefur boðið í.

Virðulegi forseti. Þetta var mest um stefnu Samfylkingarinnar í auðlindamálum en minna um þá tillögu til þingsályktunar sem við ræðum hér, en hv. þingmenn í atvinnuveganefnd taka vonandi mið af stefnu Samfylkingarinnar og finna út úr því hvernig þeir geta nýtt sér hana til að þingsályktunartillagan gefi sem mest til sjávarbyggða í landinu.