144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef af þessu mjög þungar áhyggjur. Við þurfum að hafa ákveðna kjölfestu í kringum stofnanir af þessu tagi. Það verður að segjast eins og er að Tryggingastofnun er kannski ekki sú stofnun sem veldur öryggi hjá mörgum sem þurfa að sækja þangað þjónustu. Nýlegar fréttir hafa heyrst af fólki sem er með varanlega fötlun og í hjólastól, og hefur verið þannig frá fæðingu, sem þurfti að sanna að það væri með varanlega fötlun og í hjólastól og þangað til það væri sannað fengi það ekki bætur eða umönnunaraðila. Þetta er fráleit stjórnsýsla.

Að bæta því ofan á — við erum að tala um fólk sem þarf á þjónustu að halda, þjónustu sem við höfum sameiginlega ákveðið að eigi að vera hluti af grunnstofni samfélagsins — og skapa meira óöryggi í kringum þá stofnun er bara ekki í lagi.

Ég er alfarið á móti því að færa slíkt vald í hendur einstakra ráðherra, framkvæmdarvald sem hefur nú þegar allt of mikil völd, ég er alfarið á móti því. Að fara að hræra í Tryggingastofnun af öllum stofnunum — það er um að gera að níðast á þeim sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það er einhvern veginn þemað.