144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér fyrr í dag eyddi ég svolitlum tíma í það á nýjum vef Alþingis sem er reyndar þannig úr garði gerður að það er mjög auðvelt að fara yfir gamlar ræður þingmanna og verður maður að segja lifi internetið í þeim efnum. En ég er með nokkra vel valda kafla úr ræðum hæstv. forsætisráðherra, m.a. þennan hér, með leyfi forseta:

„Það er gamalkunnug setning að vald spilli og algjört vald spilli algjörlega. Því er þetta frumvarp svo mikið áhyggjuefni,“ — þarna var hann auðvitað að tala um frumvarp þáverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur — „vegna þess að þegar valdinu er þjappað saman á einn stað er það ekki til þess fallið að draga fram það góða í viðkomandi, heldur miklu frekar að ýta undir hið neikvæða.“

Þetta er auðvitað spurning um það sem við erum að reyna að berjast við, samþjöppun valds og spillingu. Það er einfaldlega mín skoðun og ég held að það sé útbreidd skoðun í samfélaginu að við séum bara komin út úr þeim tíma þegar ákvarðanir eru teknar af einni manneskju. Þess vegna er 26. gr. stjórnarskrárinnar barn síns tíma, hún er úrelt. Ákvörðunarvald hjá forseta um það hvort senda eigi mál í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki, algerlega byggt á geðþótta, er liðin tíð og við eigum ekki að fara aftur til baka í þann veruleika. Við eigum að byggja ákvarðanir okkar á bestu mögulegu upplýsingum og við eigum að byggja okkar ákvarðanir þannig að það sé gagnsæi, það sé hægt að sjá hvers vegna ákvörðun hefur verið tekin, hvers vegna tiltekinn starfsmaður hafi verið (Forseti hringir.) ráðinn, hvaða hæfniskröfur hafi verið gerðar o.s.frv., þannig að það ríki traust á kerfinu.