144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er margt í þessu frumvarpi sem gefur tilefni til ítarlegrar umræðu.

Mig langaði að nefna tvennt við hv. þingmann. Í fyrsta lagi er það þessi tilflutningur á starfsfólki frá stofnunum til ráðuneyta og frá ráðuneytum til stofnana. Ég held að við séum öll á því, og við stuðluðum að því á síðasta kjörtímabili, að sveigjanleiki starfsfólks verði meiri innan Stjórnarráðsins, ekki síst til þess að Stjórnarráðið verði aðlaðandi starfsvettangur og fólk geti fengið að sinna ólíkum verkefnum og haft sveigjanleika. En hérna er þetta orðið mun víðtækara. Ég velti því upp hvort þetta geti ekki valdið því að af geðþótta sé hægt að skipta út fólki og velja inn í ráðuneyti fólk sem hugnast ráðherra hverju sinni. Nú kann þetta að virka eins og ég sé að ætla fólki að vera óvandaðra en gengur og gerist en þetta er ákveðin hætta.

Varðandi tilflutning stofnana þá tel ég hins vegar að við eigum að umgangast stofnanir ríkisins út frá því samfélagslega hlutverki sem þær hafa en ekki út frá byggðapólitík, að hægt sé að staðsetja þær hingað og þangað. Þingmaðurinn nefndi ágætt dæmi af Skógrækt ríkisins þegar henni, með vönduðu ferli, var valinn staður sem var eðlilegur og í samræmi við hlutverk hennar, í helsta skógræktarhéraði landsins. Fiskistofa er á mörgum svæðum og slíkt, en væri ekki líka eðlilegt út frá byggðasjónarmiðum varðandi þetta (Forseti hringir.) að leggja miklu meiri áherslu á störf án staðsetningar?