144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi að ég hefði tíu mínútur til að svara þeim ágætu spurningum þar sem hér er komið inn á eitt af mínum hjartans málum.

Ég er algjörlega sammála. Byggðavandinn verður aldrei leystur með einhverri dólgahugsun um að taka bara stofnanir með manni og mús, rífa þær til og henda þeim niður á einhverja staði í landinu. Þar með er ekki sagt að menn geti ekki og eigi ekki að horfa til þeirra möguleika sem eru í slíku, að færa kannski til þungamiðju starfsemi, dreifa störfunum og staðsetja nýjar stofnanir eða setja þær á fót á vel völdum stöðum þar sem það hentar á landsbyggðinni.

Það er hins vegar í almennri uppbyggingu hinnar opinberu þjónustu og dreifingu hennar sem tækifærin liggja og auðvitað í störfum án staðsetningar og fjarvinnslu og öðru slíku. En þegar við förum niður á minnstu staðina — nú höfum við verið að tala hér um Hafnarfjörð versus Akureyri — um hvað snýst þetta þá, í 400–600 manna byggðarlögum? Þetta snýst um að menn hafi einn lögregluþjón en ekki engan, þetta snýst um það að menn hafi einn hjúkrunarfræðing en ekki engan, þetta snýst um slíka hluti. Það er lekinn á þessum störfum, jafnvel og alveg sérstaklega út úr minni byggðunum, sem er eiginlega tilfinnanlegastur í þessu og hefur verið áberandi á þessum þrengingarárum okkar, því miður.

Ég held að við getum horft til fordæma um að mörgu leyti vel heppnaðar aðgerðir. Ég hef mikið fylgst með Noregi í þessum efnum í sirka 25 ár, þó að þau væru 30, og lengi dáðst að því hvernig þeir hafa býsna markvisst, og að því er virðist án verulegra deilna, beitt ríkisvaldinu til þess að koma í veg fyrir að Finnmörk og vesturströnd Noregs gengi inn í sig. Þeir byggðu upp Tromsø með gríðarmiklum opinberum stuðningi, öflugum háskóla, sjúkrahúsi o.s.frv. Þeir eru með Tækniháskóla Noregs í Þrándheimi, gríðarlega stóra og glæsilega stofnun sem þeir búa vel að. Og þeir eru ekki með höfuðstöðvar landhelgisgæslunnar í höfuðborginni, ef ég man rétt eru þær í Bodø, þar er Kystvakten með sínar höfuðstöðvar o.s.frv. (Forseti hringir.) Við getum því ýmislegt af því lært sem skynsamlega er gert í öðrum löndum líka.