144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög þörf umræða og góðar vangaveltur hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur. Mig langar bara að segja það í upphafi að þegar ég var að tala um Tryggingastofnun sérstaklega þá held ég að það sé mikilvægt að sú stofnun sé hér miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að flestir viðskiptavinir hennar búa hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er hins vegar hjartanlega sammála því að það er mjög mikilvægt að útibú frá stofnunum séu víðs vegar um landið. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að ráðherra geti ekki upp á sitt eindæmi ákveðið að sameina þjónustustöðvar víðs vegar um landið, því að það mundi líklega fækka útibúum og starfsfólki. Ég er mun hlynntari því að þegar við hugsum um landsbyggðina þá förum við ekki í einhverjar stókarlalegar aðgerðir, eins og oft hefur verið bent á varðandi flutninginn á Fiskistofu, með manni og mús, á annan stað, heldur að við einmitt stöndum vörð um þær stofnanir eða þau þjónustuútibú sem eru fyrir hendi og tökum það frekar í smærri einingum, eða höfum kerfið þannig uppbyggt að fólk geti unnið í sinni heimabyggð þó svo að meginyfirbygging eða miðja hins stjórnsýslulega valds sé hér á höfuðborgarsvæðinu.