144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar að spyrja um annan þátt frumvarpsins í síðara andsvari og það varðar lögfestingu ráðherranefnda. Í frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir að lögfesta ráðherranefndir um ríkisfjármál og efnahagsmál og menn telji, samkvæmt umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsins, að það sé með tilvísun til meginniðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem lögð er áhersla á mikilvægi samstarfs og upplýsingastreymis þvert á ráðuneyti.

Ég vil spyrja hv. þingmann um hans mat á stjórnskipulegri stöðu þessara ráðherranefnda, þ.e. að við þá stjórnskipan sem við búum þar sem ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald og hver ráðherra er í raun og veru endanlegt vald í sínum málaflokki, hver sé þá, miðað við samþykkt þessa frumvarps, stjórnskipuleg staða þeirra ákvarðana sem teknar eru á vettvangi slíkra ráðherranefnda því ekki er um það fjallað með sérstökum og tilgreindum hætti í þessu frumvarpi.