144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir einstaklega góða og yfirgripsmikla ræðu. Ég þakka henni fyrir það hvernig hún talaði um þá togstreitu sem verið er að búa til milli landsbyggðar og höfuðborgar og ekki síður hvernig hún talaði um opinbera stjórnsýslu og stofnanir ríkisins út frá nútímalegu sjónarhorni, en ekki sem einhvers konar herfang sem notað er til að viðhalda völdum eða afla þeirra.

Mig langaði að dvelja við þann punkt varðandi flutning stofnana. Það hefur mikið verið rætt út frá Fiskistofu en þingmaðurinn kom inn á að hægt væri að búa til einhvers konar klasa þar sem fólk væri að vinna saman frá ólíkum stofnunum ríkisins af því að stofnanir ríkisins ganga út á þjónustu, þekkingaöflun og eftirlit með ýmiss konar starfsemi sem getur verið gott að hafa sem víðast.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hún telji ekki rétt að líta til fyrirbæra eins og (Forseti hringir.) Austurbrúar á Austfjörðum sem fyrirmyndar í þeim efnum?