144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:42]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta ójafnvægi er kannski eitt af því sem verður fylgifiskur þessa frumvarps. En það eru nokkur önnur atriði sem eru farþegar í frumvarpinu, sem er sérstaklega til að reyna að koma lagagrundvelli undir flutning Fiskistofu, þó að nú sé búið að fresta því; maður undrast stundum að við skulum vera að ræða þetta þessa dagana. En þetta skiptir samt sem áður allt saman máli.

Einn af þeim farþegum sem eru í frumvarpinu eru ráðherranefndirnar sem hv. þingmaður kom sérstaklega inn á. Ég hafði skilið það þannig að ráðherranefndir, ef þær starfa, geti út af fyrir sig aldrei ákveðið endanlega lausn mála, þær hljóta að verða að bera það fram fyrir ríkisstjórnarfund. Ráðherranefndir geta ekki komið í staðinn fyrir ríkisstjórn eða samþykkt ríkisstjórnarinnar. Eða hvað?

Eins og minnst hefur verið á ber hver (Forseti hringir.) ráðherra ábyrgð á sínu sviði. Geta þá fjórir ráðherrar ákveðið að þeir ætli að gera eitthvað án þess að bera það undir ríkisstjórnarfund?