144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:44]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þetta eru lög sem eru til þess að gera ný, þau voru sett árið 2011, og það sem maður byrjar á að velta fyrir sér er af hverju verið er að breyta lögunum. Maður ætti kannski oftar að spyrja: Hvað er það sem kallar á þessa breytingu?

Í þessu máli er það eiginlega augljóst. Menn lentu í vandræðum og ætluðu sér að fara fram hjá öllum lögum og reglum við flutning Fiskistofu. Þeir átta sig þá á því að það þarf lagastoð til þess að breyta búsetu eða heimilisfesti Fiskistofu og búa þá til heilt frumvarp og taka ýmislegt með í farteskinu, sumt er hugsanlega til bóta, annað er umdeilanlegt. Það er full ástæða til að ræða þessar breytingar og fara vel yfir þær, vegna þess að það sem Stjórnarráðið á hverjum tíma þarf á að halda er ákveðið traust og ekkert ákveðið traust heldur þarf það á miklu trausti að halda og ákveðinni festu og reglufestu. Það skiptir því mjög miklu máli að vandað sé til verka.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar, eftir hrunið, rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, var unnin skýrsla um Stjórnarráðið. Sumt af því kemur fram hér í einni útgáfu, annað var komið í lögin 2011og sumt þarf auðvitað að vera í sífelldri endurskoðun. En ég vara við því að menn fari fram með svona frumvarp, sem þarf að vera í býsna góðri sátt, af einu tilefni sem er Fiskistofumálið. Það er sérstaklega ámælisvert vegna þess að það mál er náttúrlega þvílíkt klúður þar sem hæstv. forsætisráðherra kemur á einhvern fund framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi og tilkynnir að færa eigi Fiskistofu. Síðan kemur hæstv. atvinnuvegaráðherra og fylgir málinu eftir og svo kemur náttúrlega í ljós að það er enginn grunnur á bak við þetta og farið er að segja: Þetta á að gerast strax. Þá er farið að skýra út hvernig eigi að gera þetta, það á að taka lengri tíma og svo er farið yfir í að þetta verði þannig að menn geti kannski starfað á báðum stöðum. Síðan hafa menn hrökklast algjörlega til baka og eru í rauninni búnir að tæta stofnunina sundur og eyðileggja þá hugmynd að reyna að byggja stofnunina upp á nýjum stað.

Fyrir okkur sem höfum barist fyrir byggðastefnu í þeirri merkingu að reynt sé að gæta jafnræðis í uppbyggingu á opinberri þjónustu um landið í heild sinni þá er þetta eitt af þeim vondu málum sem koma óorði á umræðu um byggðastefnu. Það þarf að gæta varkárni. Menn hefðu átt að læra af reynslunni og þá er ég að tala um Landmælingar Íslands sem oft er vitnað til í þessu frumvarpi. Það endaði að vísu allt mjög vel en var mál sem þýddi verulegar breytingar á stofnuninni og erfiðleika akkúrat þegar yfirfærslan eða breytingin átti sér stað, en stofnunin hefur síðan orðið mjög öflug og sterk í umhverfi sínu á Akranesi. Þess vegna voru settar reglur meðal annars um það hvernig standa ætti að sameiningum, hvernig standa ætti að breytingum á stofnunum, t.d. fjármálaráðuneytinu, og hefði verið eðlilegt að menn tækju fram þá tékklista og færu yfir þá áður en þeir komu með stórkarlalegar yfirlýsingar um breytingar.

Meginatriðin í frumvarpinu, og það sem mér finnst gagnrýniverðast, eru þrjú. Í fyrsta lagi er það að gefa afdráttarlausa heimild til ráðherra til að ákveða staðsetningu stofnana, ég kem inn á það betur síðar. Í öðru lagi er það heimildin til að færa starfsfólk á milli ráðuneyta og stofnana. Í þriðja lagi eru það siðareglurnar og hverjum beri að túlka eða leiðbeina þegar kemur að þeim þar sem það er fært undir forsætisráðuneytið og tekið úr höndum sjálfstæðrar nefndar sem átti að vera til leiðsagnar hvað það mál varðaði.

Ég ætla í ræðu minni að fara yfir greinarnar sem tengjast þessum málum sérstaklega og þá fyrst 1. gr. frumvarpsins, sem er auðvitað tilefni frumvarpsins. Þar er textinn svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Það er sjálfgefið að í mörgum lögum er kveðið á um hvar stofnun eigi að vera og það er ekki verið að breyta því öllu saman. En það er verið að gefa afdráttarlausa heimild til að ráðherra geti ákveðið staðsetningu án þess að bera það undir Alþingi. Það er það sem ágreiningurinn stendur um. Það er ákveðin tilhneiging til að segja: Er ekki í lagi að ráðherrar hafi meiri völd? En hvað er að óttast ef menn vanda vel til verka að bera það undir Alþingi? Er ekki öruggara að fá þá umfjöllun inn á Alþingi þar sem menn geta fengið umsagnir, leitað til þeirra aðila sem koma að málinu og opnað fyrir það að allir geti gert athugasemdir og komið með tillögur? Af hverju eru menn að taka þetta út úr þinginu? Ég held að þarna sé um fljótfærni að ræða og þetta sé algjörlega óþarft ákvæði. Það hefði ekki verið neinn vandi að taka Fiskistofu sérstaklega og ræða staðsetningu stofnunarinnar ef ráðherra ætlaði að flytja hana. Það hefði krafist miklu, miklu vandaðri greiningar á því sem þar væri verið að gera, þar væri farið eftir þeim leiðbeiningum sem ég var að tala um áðan, þar yrði að ræða nákvæmlega hvaða rök væru fyrir því að færa Fiskistofu, farið í greiningu á því hver starfsemin er, hvaða kostir fylgdu því að færa hana til Akureyrar og gert kostnaðarmat á því. Sumt hafði verið gert áður þannig í raun hefði ekki verið vandamál að fylgja því eftir og fara yfir þann rökstuðning. Það gengur engan veginn upp að taka stórkarlalegar ákvarðanir og segja: Við ætlum að fara með þetta svona, óháð öllu öðru.

Ég heyri ekki annað á þingmönnum en að þeir séu allir á þeirri skoðun að við eigum að gæta þess, eins og ég sagði í byrjun, að jafnræði sé á milli svæða í landinu hvað varðar þjónustu. Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur til dæmis gert sérstaka samþykkt í 14 eða 15 liðum um bráðaaðgerðir í byggðamálum þar sem einmitt þetta atriði er dregið fram, ásamt fjöldamörgum öðrum, hvernig við getum búið fólki á landsbyggðinni og landsbyggðunum, við erum farin að nota orðið í fleirtölu, þannig aðstæður að það sé samkeppnisfært umhverfi við höfuðborgarsvæðið. Það á auðvitað að vera leiðarljósið í öllu. Ég tek undir það sem kom fram áðan að þetta snýst ekki endilega um að færa stofnanir, eins og þetta séu einhverjir klumpar sem eru færðir til. Þetta er spurning um hvar þjónustan er staðsett og hvernig við dreifum henni um landið og hvar hún er veitt. Í mjög mörgum tilfellum er þjónustan ekki endilega háð því að maður geti gengið inn á skrifstofu eða gengið inn í stofnun. Það er verið að veita þjónustu þar sem er í sjálfu sér ekki reiknað með því að menn geti komið inn af götunni og fengið afgreiðslu. En það eru ákveðnir hlutir sem staðsetning stofnunar getur haft veruleg áhrif á.

Við skulum taka til dæmis Háskólann á Akureyri. Byggður er upp háskóli sem skapar sér ákveðna sérstöðu og er staðsettur á Akureyri. Sjáum svo hvaða áhrif það hefur á heimabyggðina. Það hefur haft áhrif sem eru mjög athyglisverð að svo miklu leyti sem maður getur rannsakað þau. Þarna eru kenndar greinar eins og iðjuþjálfun, ákveðin tegund af kennaranámi og fleiri greinar og fólkið sem sækir skólann á Akureyri kemur gjarnan af landsbyggðinni og býr áfram á landsbyggðinni. Það þýðir að auðveldara hefur verið að manna svæði úti á landi, vegna þess að skólinn er staðsettur úti á landi.

Mér er líka mjög minnisstætt þegar við vorum fyrir stuttu í Vinnumálastofnun að hlusta á skýrslu hennar um atvinnuhorfur eða vinnumarkaðinn á næstu þremur árum. Þar kom fram aukning á störfum á síðastliðnu ári á Íslandi og voru það um 2.700 ný störf, öll í ferðaþjónustu. Sá sem talaði þar fyrir hönd ferðaþjónustunnar og var að ræða um þetta sagði: Einn af stóru þáttunum í að styrkja móttöku og þjónustu við ferðamenn er aukin menntun. Hann tók sérstaklega fram að sú menntun þyrfti að fara fram úti á landsbyggðinni, þar þyrfti uppbyggingin að vera til að ná að dreifa þessu yfir landið. Til að geta tekið á móti vel yfir milljón gestum eða ferðamönnum þurfa menn að vera tilbúnir að sinna þeirri þjónustu úti á landi og það þarf að auka mjög kunnáttu, færni og leikni, hvort sem um er að ræða í eldamennsku, þ.e. kokka, eða í þjónustu, alls kyns ferðaþjónustu.

Það eru skólar úti á landi, eins og Hólaskóli, sem sinna ferðaþjónustuþættinum. Við getum líka tekið landbúnaðarskólana. Við förum ekkert endilega með alla þessa skóla til Reykjavíkur, en við getum verið með þetta í góðu samstarfi og tryggt að þetta sé staðsett í því nærumhverfi sem helst getur fjallað um þá hluti. Það eru mörg dæmi um velheppnaðar breytingar og uppbyggingu þar sem hefur þurft að leysa ákveðin vandamál. Við getum tekið Innheimtustofnun á Blönduósi, sem hefur reynst mjög vel. Það hefur tekist að halda þar mjög stabílum hópi starfsfólks, það verið þjálfað upp og það hefur tekið að sér innheimtu sekta fyrir landið í heild. Það er ekki háð því að maður geti gengið inn af götunni, þar sem sektirnar eru flestar, það er líka ágætt að geta unnið í friði. Það hefur tekist mjög vel til að manna þessa staði og verið stabílt starfsfólk og þetta tekist einstaklega vel.

Við erum með dæmi um Íbúðalánasjóð sem er að hluta til á Sauðárkróki, við erum með Fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga. Við getum tekið Vinnumálastofnun sem fór á Skagaströnd vegna mikillar aukningar atvinnuleysis þar. Kannski eru bestu dæmin náttúrustofurnar, því að það er auðvitað þannig að ef maður ætlar að fylgjast með lífinu og náttúrufari o.s.frv. í Breiðafirðinum er ekki eðlilegast að vera í Öskjuhlíðinni eða einhvers staðar í Reykjavík. Það er eðlilegra að vera í Stykkishólmi, eins og þar er og að hluta til í Ólafsvík. Þannig er það með ýmislegt annað sem nýtist og tengist atvinnulífinu úti á landi með náttúrufari á viðkomandi stöðum.

Þetta þingmál snýst ekki um viljann til að dreifa þjónustu úti um allt land. Hann er til staðar og hjá þeim sem hér stendur. Ég hef mikinn áhuga á því en ég harma að þessi leið skuli vera farin og þar með eyðilögð umræðan og aðferðin við það hvernig við byggjum upp opinbera þjónustu á landsbyggðinni. Það er ekki líklegt til þess að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin þó setti sér og hefur mistekist svo herfilega að ná, að auka sátt og samvinnu í þessu landi. Við höfum séð það í fleiri málum. Ég veit ekki hvort þetta er ótti við lýðræðið eða ótti við umfjöllun Alþingis, ótti við að umræðan geti afvegaleitt eitthvað eða hvernig það er, en það eru alltaf að koma fleiri og fleiri tillögur frá núverandi hæstv. ríkisstjórn um að taka til sín völd. Höfum í huga að eitt af því sem var rætt mjög mikið, m.a. af stjórnarflokkunum, bæði Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, á síðasta kjörtímabili var ein af niðurstöðunum eftir rannsóknarskýrsluna og eftir þingmannanefndarskýrsluna. Niðurstaðan var að hér væri of mikið ráðherraræði, það væri of mikið meirihlutaræði, of fáir sem tækju ákvarðanir. Þessi ríkisstjórn stefnir meira og minna í það. Þeir vilja fá að hafa völd, fá að ráðskast með hlutina, þeir gefa ekkert fyrir það að hér stjórnarandstaða sem var með 50% þjóðarinnar á bak við sig við síðustu kosningar, svo við tökum aðeins það og förum ekki í skoðanakannanir eða annað.

Fiskistofumálið, sem er ástæðan fyrir þessu frumvarpi, er ekki gott mál til að nota sem rökstuðning fyrir því að ráðherra geti valið stofnunum staðsetningu.

Annað sem er látið fljóta með er hreyfanleiki starfsmanna innan stjórnsýslunnar. Ég held að allir vilji hafa sveigjanleika og möguleika á að færa til fólk og við lærðum það þegar hrunið varð. Þá komu hingað 100–200 blaðamenn frá hinum og þessum heimshornum og þetta hlóðst inn á forsætisráðuneytið, sem var með innan við 20 starfsmenn ef allir voru taldir og þeir áttu að sinna fólkinu á sama tíma og utanríkisráðuneytið að einhverju leyti. Skipulagið var ekki þannig að menn gætu hreyft til fólk og leyst svona verkefni í byrjun. Menn fundu svo lausnir á því, en þess vegna töluðu menn um að við þyrftum að auka sveigjanleika.

Eftir þetta komu fram tillögur og þá var tillaga um að skoða hreyfanleika starfsmanna innan ráðuneyta og líka stofnana, eins og hér er gerð tillaga um. Niðurstaðan varð sú árið 2011 að fara í að auka hreyfanleikann og sveigjanleikann á milli ráðuneyta. Hérna er stjórnsýslustofnunum bætt við og í fljótu bragði gæti manni virst þetta í góðu lagi, sérstaklega ef formið á því væri í lagi, en það eru komnar býsna góðar ábendingar um að þetta sé ekki endilega skynsamlegt, m.a. vegna þess að í mörgum tilfellum erum við að tala um eftirlitsstofnanir, við erum að tala um stofnanir sem hafa það hlutverk að gæta að eða veita ráðuneytum sérstaka ráðgjöf og við þolum ekki að missa það sjálfstæði. Við þurfum að hafa öflugar eftirlitsstofnanir sem ekki eru háðar geðþóttaákvörðunum ráðherra, sem þar með er jafnvel búinn að setja forstöðumenn í þá stöðu að þeir verði hlýða stjórnvöldum í einu öllu, þar sem ráðuneyti, ríki og Alþingi eiga að setja meginreglurnar en ekki handstýra einstökum stofnunum.

Það kemur fram hér í umsögnum að menn megi ekki skerða sjálfstæði stofnana, menn verði að treysta á að stofnanir geti haft frumkvæði og borið ábyrgð og axlað þá ábyrgð en ekki falið sig á bak við að þær fái ekki að gera þetta og megi ekki gera hitt o.s.frv., að því sé meira og minna handstýrt af ráðuneytunum. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar við komum að eftirlitsstofnunum, við getum tekið Fjármálaeftirlitið sem dæmi, Samkeppniseftirlitið o.s.frv. Þess hefur verið gætt í ákvæðinu sem við vorum að ræða, um Bankasýsluna í öðru samhengi, að ríkisstjórn, ráðherrar eða fulltrúar ráðuneyta geti ekki verið með valdboð, hótanir eða ógnanir á einstakar stofnanir. Það er sérstaklega hættulegt ef menn eru líka að tala um starfsmannamál, að færa til fólk. Þetta mun hugsanlega vekja tortryggni meðan það sem við viljum sjá er gagnsæi, við viljum sjá að ráðnir séu hæfustu einstaklingarnir eftir auglýsingu og að jafnræðis sé gætt við ráðningar. Þetta hefur verið í umræðu í áratugi og menn hafa verið að þróa formið, hvernig við ráðum fólk og tryggjum að það geti notið eigin verðleika. Mér finnst þessi breyting vera í öfuga átt. Mér finnst hún óþörf og jafnvel hættuleg. Þetta er dæmi um það sem er látið fljóta með fiskistofumálinu en er ekki til bóta.

Síðan er það þriðji liðurinn, sem er býsna fróðlegur og hefur verið töluvert til umræðu í dag, um siðareglur og hvernig haldið er utan um þær. Það er þannig, með leyfi forseta, að:

„Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Þetta er verið að setja á forsætisráðuneytið og þá undir stjórn forsætisráðherra. Ef menn hefðu sett upp sérstaka deild og sagt að við ættum að vera með deild sem væri sjálfstæð innan ráðuneytisins og heyrði jafnvel ekki undir ráðherra væri þetta í sjálfu sér afsakanlegt, eins og sú nefnd sem var sett í lögunum árið 2011 var hugsuð. Hún var hugsuð til ráðgjafar og leiðbeiningar, bæði til að menn gætu fengið faglega ráðgjöf í sambandi við hvað mætti og hvað mætti ekki og til að úrskurða ef eitthvað siðferðilegt kæmi upp.

Með þessu erum við nánast að segja að forsætisráðherra sé siðapostuli landsins. Ef við skoðum þetta og verndarsvæði í byggð þar sem forsætisráðherra á að vera yfirbæjarstjóri landsins, hversu langt er í einræðið ef þetta á allt að vera á sömu hendinni í litlu ráðuneyti, forsætisráðuneytinu? Ég held að menn séu algjörlega að fara villir vega þarna. Það þarf þá miklu skýrari ákvæði um það við hvað er átt með því að búa til einhverja umgjörð í ráðuneytinu til að geta sinnt þessu hlutverki, því að það er gríðarlega mikið atriði að við náum tökum á umræðu um spillingu og á öllum siðareglunum. Menn hafa skilgreint spillingu mjög þröngt, nánast talað um að það séu eingöngu þau mál sem eru hrein og bein lögbrot eða ef menn verða afbrotamenn, en auðvitað er miklu meira undir þegar verið er að ræða siðareglur, þegar menn fara á skjön við almennar reglur. Þá þarf einhver aðili að geta leiðbeint og haft áhrif og gagnrýnt, þannig að þær skrifuðu reglur og almennu reglur sem eiga að gilda — menn fái endurgjöf á þá stöðu. Þessi tillaga er eingöngu til þess fallin að auka tortryggni og mér finnst það ekki bæta hana að bæta því svo við að þetta eigi að vera í reglulegu samráði við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Ætla menn að fara að stjórna þeim líka? Umboðsmaður Alþingis er sjálfstæð stofnun undir Alþingi Íslendinga og einmitt höfð þar til þess að stjórnsýslan geti ekki notað umboðsmann og verði að lúta skoðunum viðkomandi, eins og hefur verið í mörgum málum og haft áhrif á ákvörðunartöku, m.a. um Fiskistofu.

Það er ótrúlega margt sem er undir í þessu frumvarpi. Í heildina getur maður sagt: Þetta frumvarp er gjörsamlega óþarft, (Forseti hringir.) og ekki til bóta. Það er til komið af vondum ásetningi um að beita valdi varðandi Fiskistofu, sem í raun er búið að reka ráðherra til baka með nú þegar.