144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gerði aðallega að umræðuefni siðareglur eða siðferðileg viðmið og það ráðgjafarhlutverk sem forsætisráðuneytið hyggst taka að sér í þeim efnum og leysa af hólmi samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið sem á að vera starfandi samkvæmt 25. gr. núgildandi laga um Stjórnarráðið. Ég hef sömuleiðis velt dálítið vöngum yfir þessu, þó að ég hefði ekki tíma til að ræða það ítarlega í ræðu minni í gær, taldi brýnna að taka aðallega fyrir önnur atriði.

Í fyrsta lagi væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður, ég heyri að hv. þingmaður er að reyna að grafa í þetta, hvort einhverjar skýringar hafi einhvers staðar komið fram sem haldbær rök fyrir þessu önnur en þau að það hafi ekki reynt svo mikið á nefndina, sem mér heyrðist koma fram áðan. Þetta er auðvitað þeim mun undarlegra, svo ég segi ekki tortryggilegra, þegar haft er í huga að orðið hefur heilmikill opinber vandræðagangur hjá einmitt forsætisráðuneytinu um siðareglur. Ég man ekki betur en umboðsmaður Alþingis hafi þurft að skrifa forsætisráðherra til þess að reyna að draga út úr forsætisráðuneytinu upplýsingar um það hvort ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, hefði yfir höfuð sett sér siðareglur eða hvort hún hefði endurstaðfest siðareglur fyrri ríkisstjórnar.

Svörin voru vandræðaleg. Fyrst var sagt að það væri, ja tekið mið af siðareglum fyrri ríkisstjórnar, en það var ekki ljóst hvort þær væru í gildi eða hefðu verið endurstaðfestar. Það er því ekki mjög trúverðugt satt best að segja að ráðuneytið sem sjálft, og ráðherrann sem sjálfur, hefur ekki staðið sig sérstaklega vel, ekki beinlínis skorað, það ætli svo að taka við þessu hlutverki, fyrir utan það að hafa má um það grundvallarefasemdir, algjörlega óháð mönnum þar á hverjum tíma, að þetta sé endilega heppilegt fyrir forsætisráðuneytið að vera þá með þetta verkefni. Forsætisráðuneytið á að vera verkstjórnarráðuneyti Stjórnarráðsins og það er ekki heppilegt að blanda inn í það (Forseti hringir.) kannski of mörgum öðrum skyldum.