144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í 8. gr. frumvarpsins sem við ræðum er talað um að leggja niður eða fella brott ákvæði sem kveður á um skipan og starfrækslu samhæfingarnefndar um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna og að 25. gr. laganna orðist svo: „Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Siðareglurnar, þær sem samhæfingarnefndin um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna leggur til og vinnur, eru hugsaðar til þess að stuðla að bættri menningu í stjórnsýslunni, vinna gegn spillingu og að hafa áhrif á dagleg störf til góðs. Nefndin á að skila skýrslu árlega og skýrslan á að vera lögð fyrir Alþingi eins og þetta er núna í lögunum, en verið er að leggja til að breyta þessu. Í verkefnum nefndarinnar er meðal annars talað um að hún eigi „að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni.“ Með því að fella brott allt sem lýtur að þessari nefnd þá sýnist mér, og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því, að verið sé að henda í burtu þeim skilningi að siðareglurnar eigi að hafa bætandi áhrif á daglegt starf, efla traust og koma í veg fyrir spillingu í stjórnsýslunni?