144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að valdfrekjuleiðin, sem hv. þingmaður kallar svo ágætlega, endi alltaf með allt úti í skurði vegna þess að samfélagið er breytt. Við horfum upp á samfélag núna, þingið, þar sem allir nota þá sinn ýtrasta rétt, sem er umtalsverður, vegna þess að við búum í lýðræðissamfélagi, búum í mannréttindasamfélagi, og allir nota þá sinn ýtrasta rétt og við sjáum það líka á vinnumarkaði. Og þegar allir nota sinn ýtrasta rétt og allt er stál í stál hér og þar í samfélaginu þá sóum við tíma, sóum hæfileikum og fé. Þess vegna er samráð, samtal og virkt lýðræði alltaf miklu betra, bara praktískt, þó að maður segi ekki meira. Auk þess er það líka náttúrlega grundvallað á réttindum manns sem manneskju.

Það að flytja störf út á land, að sjálfsögðu, það er fullt af vel heppnuðum opinberum stofnunum sem eru með störf úti um allt land, eins og ríkisskattstjóri til dæmis, hann fór í mjög vel heppnaða aðgerð, ríkisskattstjóri, að dreifa störfum þeirrar stofnunar út um allt land, bara mjög gott mál. Ég mundi kalla eftir því að við ræddum þetta í miklu meira heildarsamhengi. Það eru líka tveir hlutir, vil ég nefna, sem þarf að setja í samhengi, sem eru held ég þeir stærstu sem eru að gerast varðandi atvinnuþróun gagnvart Íslendingum, þeir ættu undir öllum kringumstæðum að vera landsbyggðinni mjög í hag, það er internetið. Internetið er úti um allt land og uppbygging fjarskipta úti um allt land ætti að gera það að verkum að fólk gæti starfað þar sem það vill. Þetta eru mjög góð tíðindi fyrir landsbyggðina og hét í stefnuskrá Samfylkingarinnar einu sinni störf án staðsetningar. Það eru kjörskilyrði fyrir það. Og hitt er ferðaþjónustan. Fólk er að koma hingað til að kaupa ferðaþjónustu, ekki bara í höfuðborginni heldur líka á landsbyggðinni. Við eigum að setja þetta líka í samhengi. (Forseti hringir.) Ég held að þróunin í atvinnumálum Íslendinga undanfarið hafi í stórum grundvallaratriðum verið mjög góð tíðindi fyrir landsbyggðina.