144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er vissulega rétt að meginmarkmið, meginefni, þessa frumvarps er flutningur Fiskistofu. Við getum líka kallað það, ef við viljum orða það á betri veg, að flytja opinber störf út á land. Við höfum deilt um hvort það sé rétta aðferðin að taka heila stofnun með manni og mús og ætla að flytja hana með valdboði í annan landsfjórðung. Það hefur komið í ljós í vetur að það er ekki boðlegt; ekki út af því að fólk vilji ekki flytja störf út á land eða þar fram eftir götunum, heldur er það ekki boðlegt fólkinu sem vinnur hjá stofnuninni. Um er að ræða lifandi fólk, fjölskyldur með börn sem eiga sitt líf hér og vilja ekki láta flytja sig svona til. Ég held að við getum öll verið sammála um að þessi aðferð er ekki boðleg.

Þess vegna er spurningin: Þegar við höfum komist að því að þessi aðferð er ekki boðleg og við viljum aðra aðferð — öll erum við sammála því að dreifa eigi störfum um landið og þá er talað um byggðastefnu. Við erum öll samdauna eða markeruð af þeim orðum sem notuð eru. Það má heldur ekki fara með þessa umræðu alla út í það, sem mér sýnist við nú aðeins vera að fjarlægjast aftur, að ekki þurfi líka að hugsa um höfuðborgina. (Forseti hringir.) Það er eitt af því sem klingir í höfðinu á mér þegar talað er um byggðastefnu, þ.e. að þá séum við að tala um allt (Forseti hringir.) landið fyrir utan höfuðborgarsvæðið.