144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að staðsetning stofnana sem heyra undir ráðherra sé hluti af almennum stjórnunarheimildum. Ráðherra hefur margs konar vald og getur tekið ákvarðanir sem eru miklu mikilvægari og afdrifaríkari en staðsetning á stofnun. Ekki ætlum við að taka það af?

Ég get skilið þau sjónarmið að menn vilji að þingið komi að þessu. Þingið getur alltaf ákveðið hvar stofnun skuli vera og gerir það í sumum tilvikum. En það gengur ekki að í hvert skipti sem á að fara í einhverjar breytingar á staðsetningu að öllu leyti eða hluta að þá þurfi að fara til þingsins.

Þær breytingar sem hafa verið gerðar og framkvæmdar og kláraðar hafa bara tekist ágætlega. Það er enginn að kvarta yfir þeim í dag, þetta hefur tekist ágætlega. En það er hins vegar alveg rétt að menn þurfa að fara mjög varlega þegar á að rífa upp með rótum heila stofnun og segja: Á morgun farið þið eitthvert annað. Hæstiréttur er búinn að segja að það gangi ekki, að sú aðferð gangi ekki. Það þarf að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða. Það þarf að taka tillit til þess hversu stór aðgerðin er, hvernig hægt er að framkvæma hana. Hvað eru margir undir, hvað er mikil breyting á stöðu og högum? Ég er ekki í nokkrum vafa um að allt þetta skiptir máli enda kemur það skýrt fram í dómi Hæstaréttar í málinu um Landmælingar. Það eru öll þessi atriði sem skipta máli. Þar er þetta raunverulega teiknað upp, og ég held að sé miklu einfaldara að hafa það bara þannig frekar en að fara að negla þetta niður nákvæmlega í lögum og takmarka þetta eða miða við hvað stofnunin er stór eða eitthvað annað.

Við komumst ekki hjá ákveðnu mati hverju sinni miðað við aðstæður sem þá eru uppi, því að lögin (Forseti hringir.) geta aldrei tekið tillit til allra aðstæðna sem uppi eru á hverjum tíma.