144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Það eru fjölmargir óvissuþættir eins og ég eyddi töluverðu púðri í að tíunda, t.d. vaxtakjörin. Það getur munað milljörðum ef vextir hækka eitthvað á næstunni, hvort við borgum 70 milljarða eða 100 eða 150 milljarða bara í vexti. Það er áhættuþáttur.

Kjarasamningarnir — það er tiltekið í áætluninni að það sé áhættuþáttur og við sjáum ekkert fyrir endann á því. Nú hafa verið gerðir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum. Ríkið er þar að leggja til pakka, ætli það séu ekki 20 milljarðar þegar upp er staðið, 16 milljarðar bara í lækkun á tekjuskatti á kjörtímabilinu. Þá erum við ekki farin að sjá launahækkanir, sem munu væntanlega verða þegar menn ná samningum við opinbera geirann. Svo er auðvitað til staðar stór áhættuþáttur sem er afnám hafta og þar leggjumst við á eitt svo að það takist eins vel og hægt er.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að auðvitað eru vaxtakjör mismunandi eftir svæðum. Það fer eftir mörgu öðru, þau eru ekkert eins á öllu evrusvæðinu. En það er óumdeilt að það fylgir því álag að vera með jafn ótraustan og lítinn gjaldmiðil og krónan er, þetta er minnsti gjaldmiðill í heimi, held ég. Er ekki stundum talað um að einhver Disney-dollari sé stærri? Það er áhætta sem felst í því og það kostar sitt. Auðvitað er ekkert himnaríki til í þessu, Evrópusambandið er það ekkert frekar en annað, en það eru kostir og gallar sem við þurfum að vera tilbúin að vega og meta og vera tilbúin að taka þá umræðu heiðarlega. Ef fólk hér á landi er að kalla eftir betri vaxtakjörum, betri lífskjörum og er að flýja til Evrópu vegna þess að það finnur ekki sinn lífsstíl hér þá verðum við að horfast í augu við það og reyna að tryggja að lífskjör hér séu eins góð og hægt er. Það gerist meðal annars með því að fá stöðugan gjaldmiðil.