144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að koma hér inn í heildarmyndina, umræður um Evrópusambandið og mögulega upptöku nýs gjaldmiðils, þó að ég hafi ekki lítinn áhuga á því, hæstv. forseti. En ég kem hér út af ákveðnum lið, sem eru S-merktu lyfin.

Í fréttum hefur verið umræða um takmörkun á aðgengi að þeim lyfjum og það er ekki af málefnalegum ástæðum heldur af þeim ástæðum að reglum var, að því er virðist, breytt í fyrra, þannig að settur er ákveðinn kvóti á hvern flokk í ákveðnum lyfjaflokkum. Við í velferðarnefnd erum að kynna okkur þetta og munum óska eftir því að ráðherra og fulltrúar úr lyfjagreiðslunefnd komi á okkar fund í næstu viku.

Ég vildi aðeins heyra nánar í þingmanninum varðandi umfjöllun um þetta mál í nefndinni því að það sem gerðist um síðustu áramót var það að meiri hlutinn hér í þinginu ákvað að S-merktu lyfin ættu að falla undir greiðsluþátttökukerfi lyfja. Hingað til hafa S-merktu lyfin verið gjaldfrjáls fyrir þá sem þau fá.

Við mótmæltum þessu harðlega enda töldum við mjög óljóst hvernig ætti að útfæra þetta. Framlög til S-merktra lyfja voru rúmlega 6,6 milljarðar í fjárlagafrumvarpinu en enduðu í því að verða innan við 6,5 milljarðar í lögunum, framlög til lyfjaflokksins voru lækkuð um rúmlega hundrað milljarða. Ég vildi spyrja hv. þingmann: Kom eitthvað fram hver stefna ráðuneytisins væri varðandi S-merktu lyfin og hvort það eigi þá að komast (Forseti hringir.) hjá því að auka útgjöld til þeirra með aukinni þátttöku almennings í kostnaði?