144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Mig langar aðeins að ítreka spurninguna um ártölin af því gert er ráð fyrir sölu á þessum eignarhlutum á þessu ári og því næsta. Þá spyr maður sig: Hversu raunhæf er þessi áætlun þegar menn leggja svona af stað? Ég held að ég geti fullyrt að ekki standi til að selja hluti í Landsbankanum á þessu ári, það er alls óvíst hvert umhverfið er og hvort við yfir höfuð fengjum þá besta verðið fyrir hann.

Það er ýmislegt sem maður veltir fyrir sér í sambandi við þessa áætlun. Í nefndaráliti meiri hlutans segir:

„Í áætluninni kemur fram að uppsöfnuð vaxtagjöld ríkissjóðs frá bankahruni á verðlagi ársins 2015 nemi um 580 milljörðum kr. Því sé brýnt að selja eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og öðrum félögum …“

Það er beinlínis sagt að það sé brýnt að selja þessa eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og þar með er verið að byggja undir það sem fram kemur í ríkisfjármálaáætluninni um söluna á eignarhlutnum í Landsbankanum. Framsóknarmenn virðast því hafa selt þessa stefnu sína og þá er bara spurning fyrir hvað það var gert.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að lokum: Á bls. 34 í ríkisfjármálaáætluninni er verið að fjalla um endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Endurskoðun virðisaukaskattskerfisins verður einnig haldið áfram með það fyrir augum að færa kerfið í einfaldara og nútímalegra horf og styrkja það sem tekjuöflunartæki.“

Út frá mínum lesskilningi, kópavogska lesskilningi, skil ég þetta á þann veg að menn ætli að hækka neðra þrepið enn frekar, búa til eitt þrep og lækka efra þrepið. Það þýðir með öðrum orðum að það á að hækka matarskattinn og skatt á nauðsynjavöru. (Forseti hringir.) Var þetta eitthvað rætt? Komu fram einhverjar hugmyndir um hvernig þetta ætti að gera að öðru leyti en í því sem ég er að lýsa hér?