144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Því er fljótsvarað: Nei, þetta var ekki rætt varðandi virðisaukaskattsbreytingarnar. Það er kannski það sem gerðist, og var ekki gott vinnuferli, að ráðuneytið var fengið inn í fjárlaganefnd áður en ráðherra mælti fyrir málinu. Við vorum því að fjalla um eitthvað sem var búið að leggja fram, það var ekki búið að mæla fyrir því og ekki búið að eiga samtal við ráðherra, heldur var farið beint í ráðuneytið. Þannig að það verður öðruvísi og það er ekki hefðbundið að gera hlutina á þennan hátt og spurningar hafa vaknað síðar. Þetta fékk ekki mikla umfjöllun í fjárlaganefnd, svo það sé bara sagt, frekar litla.

Við eigum lítinn hlut í tveimur öðrum fjármálafyrirtækjum sem kannski getur ekki endilega stoppað upp í það gat sem hér er verið að tala um. En auðvitað er það áhugavert — og ég hlakka til, af því að ég veit að einn hv. þingmaður framsóknarmanna kemur í ræðu á eftir — að vita hvað honum þykir um þetta. Ég held að þau þurfi að svara fyrir það. Mér hefði þótt vænt um að sjá hvað þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hvað mest hafa talað um skuldamál heimilanna hafa um þetta að segja af því að þetta er alvarlegt plagg.

Mér finnst það mjög merkilegt ef fólk telur ekki ástæðu til að ræða þetta hér inni. Fólk kemur hér upp undir liðnum um störf þingsins, syngur tveggja mínútna söngvísur um hve ríkisstjórnin sé frábær, en svo getur það ekki tekið alvörudebat um alvörumál. Það er ótrúlegt, virðulegi forseti.

Varðandi virðisaukaskattinn, svona rétt í restina, þá hefur ekki verið tekin umræða um það. Ég get heldur ekki séð annað, og skil það á sama veg og hv. þingmaður, en að hér verði eitt þrep og það þýðir hækkun á mat eins og öllu öðru.