144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir spurningarnar. Ég kem fyrst að þeirri ályktun flokksþings framsóknarmanna að horfa til Landsbankans sem samfélagsbanka. Hugmyndafræðin er góð og ég sé ekki að við getum ekki haldið okkur við það sem lagt er upp með í ríkisfjármálaáætlun, um að selja 30% hlut; ég tel það afar æskilegt að við losum um hluti til að geta greitt niður skuldir, sem til var stofnað meðal annars til að endurreisa fjármálakerfið sem hefur tekist með ágætum. Það rýrir í engu að hægt sé, með 70% hlut, að stuðla að því að hér sé samfélagsbanki í meirihlutaeigu ríkissjóðs.