144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina þegar kemur að skattamálum. Ég vona að sem allra flestir hafi fylgst með þessari ræðu, sérstaklega skattakaflanum hjá hv. þingmanni. Þar komu fram mjög skýr sjónarmið hans flokks, vinstri manna og sósíalista almennt, þegar kemur að skattamálum. Það er alveg til fyrirmyndar þegar þingmenn eru jafn hreinskilnir og hv. þingmaður var hér. Ég ætla að geyma þessa ræðu.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann fyrir forvitni sakir, af því að hann talaði hér um hversu ómögulegt þetta væri allt saman, að lækka og leggja af skatta og nefndi auðlegðarskattinn, að þegar hv. þingmaður sem þá var hæstv. ráðherra kynnti skattinn kynnti hann hann sem tímabundinn. Þannig kynnti hann skattinn fyrir fólki. Við vitum að það voru ekki tekjuháir einstaklingar sem greiddu þann skatt heldur fólk sem átti eignir, kannski ekki merkilegar eignir, þetta voru lífeyriseignir þess, það var ekki í lífeyrissjóði. Hæstv. ríkisstjórn skattlagði ekki lífeyriseignir einhverra hluta vegna en hins vegar eignir þessa fólks sem var aðallega eldra fólk með lágar tekjur. Af hverju var hann tímabundinn? Af hverju var bara ekki sagt að hann ætti að vera endalaus úr því að hér tala menn eins og menn vildu hafa það þannig?

Síðan fór hv. þingmaður mikinn þegar hann talaði um að skelfilegt væri að fara út í stóriðju. Var það ekki hv. þingmaður sem beitti sér fyrir skattaívilnunum og ríkisstyrkjum, það var farið í göng sem eru að fara langt fram úr áætlun ef marka má nýjustu fréttir, það var Bakki, hann fór út í Vaðlaheiðargöng, til að koma á stóriðju í hans kjördæmi?

Ég vil fá svar við þessum tveim spurningum. Af hverju var auðlegðarskatturinn tímabundinn og af hverju beitti þingmaður, sem er svona mikið á móti stóriðju, sér svona rosalega fyrir henni í sínu kjördæmi?