144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og einkum þau norrænu gleraugu sem þingmaðurinn setti hér upp við að skoða þessa þingsályktunartillögu. Ég held að það sé mikils virði að hafa raunverulegan samanburð í þessum efnum og hafa hann fyrir augunum.

Það er rétt hjá hv. þingmanni og síðasta hv. andsvaranda að maður sér hreinlega ekki hvar tekjulækkun ríkissjóðs á að koma niður, hvernig á að bæta ríkissjóði það upp þegar lofað er skattalækkunum o.s.frv.

Það sem hins vegar sést og hefur verið dregið fram í dag í umræðunni er það að tekjur ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eiga að dragast saman á næstu árum og við erum þess vegna á leiðinni burt frá því norræna módeli sem við viljum gjarnan vera í (Forseti hringir.) en höfum aldrei verið.