144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Ég þakka hæstv. forseta alveg sérstaklega fyrir að flytja okkur þau tíðindi að formaður fjárlaganefndar sé í húsinu. Mér verður strax miklu rórra. Sömuleiðis vil ég nota þetta tækifæri og taka undir með þeim lofsyrðum sem hv. þm. Mörður Árnason flutti um hv. þm. Brynjar Níelsson. Hann er einmitt dæmi um það að ræðuhöld hrína á fólki og rök. Ég minnist þess að skömmu eftir að ég hélt langa ræðu mína í gær um stjórnarráðsfrumvarpið féllst hann á að taka það aftur til skoðunar í nefnd. Ef ég fengi tækifæri til að halda ræðu yfir hv. formanni fjárlaganefndar er spurning hvort hún brygðist við með svipuðum hætti. Ég tel þó ekki rétt að láta á það reyna.

Það sem mér er efst í huga er að það eru engir mannasiðir gagnvart hv. þingmönnum Bjartrar framtíðar sem formlega hafa óskað eftir því að hlé verði gert á fundum meðan þeir halda sinn flokksstjórnarfund. Það hefur alltaf tíðkast og jafnvel komið fyrir að þingið hefur sleppt heilum degi þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) hefur verið haldinn.