144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg hárrétt. Við sjáum þess engan stað að hæstv. ríkisstjórn hafi nokkurn áhuga á því að styrkja innviðina. Ég talaði í mínu fyrra svari um heilbrigðiskerfið og að þar sé ekki hugsað fyrir auknu fjármagni næstu árin. Það má nefna annað dæmi, vegakerfið sem er einn af þeim hlutum sem hefur svolítið verið rætt um í tengslum við samgönguáætlun. Það skiptir gríðarlega miklu máli varðandi byggð í landinu, að við getum komist hér um og haldið uppi eðlilegum samskiptum, atvinnulífi og öllu saman. Það byggir á því að við komumst á milli staða eftir sæmilega greiðfærum og öruggum vegum. Því miður finnst mér á alveg gríðarlega mörgum stöðum vanta allan metnað hjá hæstv. ríkisstjórn eða mögulega (Forseti hringir.) betri pólitík.