144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru mjög skýr skilaboð, bæði til þeirra sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda og einnig til þeirra sem halda þeirri þjónustu uppi. Ef við horfum á heilbrigðiskerfið var skorið þar niður fyrir hrun. Til dæmis fór Landspítalinn með 3 milljarða halla inn í hrunið. Síðan urðum við að skera niður í heilbrigðiskerfinu. Það varð ekki hjá því komist á síðasta kjörtímabili en við vorum byrjuð að gefa til baka. Það sem við höfðum gert var auðvitað að þrengja að, leggja meira á starfsfólkið, en við sögðum líka að við mundum svo gefa í þannig að þetta væri tímabundið ástand. En þetta hefur ekki orðið tímabundið heldur er verið að leggja enn meira á starfsfólkið. Með ríkisfjármálaáætluninni er sagt: Ef þið fáið enn þá meira kaup fyrir það álag sem á ykkur hefur verið lagt ætlum við að leggja enn meira álag á ykkur.