144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[11:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hrædd um að 3% hækkun á S-merktu lyfjunum svokölluðu sé ekki næg. Það hefur verið þannig í gegnum árin að mjög miklar kostnaðarhækkanir eru á þessum lyfjum. Þetta eru nýju og dýru lyfin sem koma á markað og eru mjög dýr vegna þess að á þeim er einkaleyfi alveg upp í topp. Ég held nú raunar að það sé eitt af þeim erfiðu verkefnum sem heilbrigðisyfirvöld og við á þingi þurfum að glíma við og horfa fram á við varðandi það hvernig við forgangsröðum og hvað við leyfum. Ég nota sögnina „að leyfa“ vegna þess að þetta eru gífurlegar fjárhæðir sem er um að tefla og við megum ekki líta fram hjá því. Það þurfa öll þjóðfélög að horfast í augu við og við þurfum líka að gera það. Við þurfum að fá upp á borðið hvað við erum að tala um í raunveruleikanum vegna þess að mér finnst það oft ekki nógu skýrt.