144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég verð að segja að upphafleg ríkisfjármálaáætlun olli mér nokkrum ugg þegar ég sá að ekki var gert ráð fyrir neinni niðurgreiðslu skulda að raunvirði á næstu árum, að þær mundu einungis minnka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu vegna vaxtar landsframleiðslunnar. Það var stóralvarlegt mál og þegar maður horfir á það í samhengi við hina þungu vaxtabyrði ríkisins sést að við vorum auðvitað í mjög erfiðri stöðu og það væri alls ekki gefið að verðmætasköpun okkar stæði undir því að borga almennilega niður þessar skuldir.

Fréttir gærdagsins eru mjög jákvætt innlegg í þann þátt. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá aukið svigrúm sem nemur 35–45 milljörðum á ári inn í ríkisbúskapinn með væntri lækkun afborgana í kjölfar lækkunar skuldabyrði. Eftir stendur hins vegar hvernig menn vilja síðan ráðstafa því svigrúmi. Verður það til dæmis forgangur að lækka enn frekar veiðigjöld, nýta svigrúmið til þess? Verður forgangurinn að auka enn á öfugþróun í skattkerfinu? Þetta eru stóru spurningarnar sem við eigum eftir að fá svarað af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Vegna þess hversu illa ríkisfjármálaáætlunin er unnin og vegna þess að hún hefur ekki verið kölluð aftur til nefndar í ljósi breyttra aðstæðna er afskaplega litla leiðsögn að fá þaðan. Hjá alvöruríkisstjórn ætti ríkisstjórnarmeirihlutinn að lýsa stefnu næstu ára í ríkisfjármálaáætlun sem væri ramminn utan um stórar ákvarðanir í skattamálum og ríkisfjármálum.