144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem að mínu mati hefði mátt vera lengri.

Við að skoða þetta mál tek ég eftir ákveðnu mynstri sem hefur oft verið talað um hér en að mínu mati ekki alveg nóg, mynstri sem er mjög grafískt á bls. 18 í tillögunni sjálfri, því mynstri að með hruninu hafi orðið mikill mínus í heildarjöfnuði ríkissjóðs, þ.e. tekjur versus gjöld, og síðan fer þetta mjög fljótt að skána mjög mikið og mjög hratt. Þótt ég hljómi eins og sérstakur talsmaður síðustu ríkisstjórnar verð ég að segja að mér hefur alltaf þótt ósanngjarnt þegar það verður efnahagshrun, stjórn tekur við sem reynir að taka til í samfélaginu og svo er henni bolað burt vegna þess að allir eru óánægðir með ástandið, en síðan tekur við ný ríkisstjórn sem stærir sjálfa sig af því að bera ábyrgð á batnandi afkomu ríkissjóðs og efnahagsins þegar í reynd var mjög ljóst að það var að gerast samkvæmt þróun liðinna ára. Ég sé þetta sama mynstur hér nema með svolítið áhugaverðri undantekningu. Ef við lítum á málflutning talsmanna þess að lækka skatta og minnka tekjur ríkissjóðs sést að þeir hafa oft haft á orði að þeir minnki ekki tekjur ríkissjóðs heldur lækka skatta og auka tekjur ríkissjóðs. Maður sér þetta ekki í grafinu hérna. Maður sér að gjöldin fara mjög mikið niður, blessunarlega, og tekjurnar fara upp og svo skyndilega fara þær niður 2014 og halda áfram að fara niður eða haldast nokkurn veginn jafnt þar eftir.

Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður hefði hagað þessu eftir eigin höfði ef hv. þingmaður hefði verið í meiri hluta áfram. Hvernig hefði hv. þingmaður viljað sjá þessar línur þróast eftir 2013? Þá langar mig sérstaklega að spyrja um tekjuhlutann en einnig gjaldahlutann ef hv. þingmaður kemur því að.