144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það væri mjög ábyrgt af forseta þingsins sem situr núna að hafa samband við þann þingforseta sem situr alla jafna og hefur í rauninni valdið og athuga hvort ekki væri rétt að taka þetta mál af dagskrá. Það er hægt að setja það aftur á dagskrá síðar, taka það af dagskrá núna og fara í næsta mál. Það eru margar málefnalegar ástæður fyrir því að taka þetta mál aftur inn í nefnd. Það var ekki vel unnið í nefndinni, það fór ekki til umsagnar. Þessi þingsályktunartillaga er lögð fram af ráðherra á grundvelli þingskapa. Þar segir að sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins skuli leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl ár hvert tillögu til þingsályktunar o.s.frv. Þar er meðal annars talað um að nefndin geti leitað umsagna annarra nefnda. Það var ekki gert. Það var ekki einu sinni leitað umsagna þeirra aðila sem eru skilgreindir sem óvissuþættir í málinu, svo sem kjarasamningar, ekki voru aðilar vinnumarkaðarins kallaðir til. Skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkissins, ekki fulltrúar hans. Íbúðalánasjóður tvisvar sinnum nefndur sem óvissuþáttur, ekki kallaður fyrir þótt hann væri hjá nefndinni þann sama dag og málið var rætt. Vaxtakjör ríkissjóðs, (Forseti hringir.) efnahagsáföll, ferðaþjónustan, sjávarútvegur, fulltrúar þeirra voru ekki kallaðir fyrir nefndina. Það væri ábyrgt af forseta að slíta þessu máli.