144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Almennt má segja um stöðu mála hér að ekki sé annað að sjá en að forseti og meiri hlutinn telji að við höfum allan heimsins tíma. Það hefur margsinnis birst í áherslum þeirra, meðferð dagskrárvalds og öðrum hlutum, undanfarna daga og undanfarnar tvær til þrjár vikur. Þá það. Þá er það bara þannig. Þá höfum við bara allan heimsins tíma og ekki ætla ég að svíkjast um í vinnunni. Ég verð að vísu að játa að ég er frekar þungur ef allur júlí færi uppistöðulaust í þingfundi. Ég hafði hugsað mér að gera eitthvað annað, að hluta til að minnsta kosti, í júlí. En segjum það. Þá bara verður það eins og það er. En þetta er í höndum forseta og meiri hlutans. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að málum er þannig stýrt að það er eins og við höfum allan heimsins tíma.

Varðandi það mál sem hér er á dagskrá hafa hins vegar komið fram mjög sterk efnisleg rök fyrir því að það eigi sem slíkt að fá aðra meðhöndlun, að nefndin eigi að fá það aftur til umfjöllunar, endurskoða það og fylgja því svo úr hlaði aftur með framhaldsnefndaráliti. Það er eiginlega niðurlægjandi að halda áfram að ræða þessa tillögu hverrar forsendur eru algerlega brostnar.