144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um 356. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

Frumvarpið var kallað til nefndar eftir 2. umr. um málið til að mögulegt væri að yfirfara gildistökuákvæði þess sem upphaflega voru miðuð við að frumvarpið yrði samþykkt á árinu 2014 og vegna þess að borist höfðu ábendingar um ákvæði laga nr. 142/2013, um skjölunarskyldu innlendra aðila sem eingöngu eiga í viðskiptum við aðra innlenda aðila sem þeir eru tengdir og/eða eru í samsköttun með.

Við umfjöllun í nefndinni komu einnig fram ábendingar um að hlutfallstala sem tiltekin er í inngangsmálslið, viðauka við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri ekki í samræmi við kerfisbreytingar sem gerðar voru á virðisaukaskatti um síðustu áramót og hins vegar að ósamræmi væri í tollskrárnúmerum í sama viðauka vegna breytinga sem gerðar hafa verið á númerum tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005.

Nefndin tók málið til umfjöllunar og fór yfir framangreind atriði og niðurstaða meiri hluta nefndarinnar liggur fyrir í nefndaráliti á þskj. 1039 og í breytingartillögu á þskj. 1040.

Milli 2. og 3. umr. fékk nefndin á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samkeppniseftirlitinu, ríkisskattstjóra og Viðskiptaráði Íslands.

Ég fer fyrst yfir ýmsar breytingar á viðauka við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, til samræmis við kerfisbreytingar á virðisaukaskatti. Þá leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist nýr kafli með einni nýrri grein, 20. gr., þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Nánar tiltekið er annars vegar lagt til að sú hlutfallstala sem tiltekin er í inngangsmálslið viðauka við lögin taki breytingum til samræmis við kerfisbreytingar sem gerðar voru á virðisaukaskatti um síðustu áramót. Hins vegar eru lagðar til ýmsar breytingar á tollskrárnúmerum í sama viðauka til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á númerum tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 88/2005. Síðargreindu breytingarnar, þ.e. breytingarnar á númerum í tollskrá, eru ótengdar þeim virðisaukaskattskerfisbreytingum sem tóku gildi um síðustu áramót og miða eingöngu að því að lagfæra upptalningu á tollskrárnúmerum vara til manneldis sem tilgreindar eru í viðaukanum.

Tillögur um breytingar á lögum um virðisaukaskatt koma fram í 17 stafliðum 2. töluliðar breytingartillögunnar. Ég mun ekki rekja breytingar á tollskrárnúmerum frekar hér en áhugasamir geta lesið sér til í þingskjalinu.

Þá er það næst skjölunarskylda innlendra aðila sem eingöngu eiga í viðskiptum við aðra innlenda aðila sem þeir eru tengdir og/eða í samsköttun með. Á fundi hjá nefndinni hlaut c-liður 3. gr. frumvarpsins nokkra gagnrýni. Bent var á að meginmarkmið milliverðlagningarreglna OECD væri að koma í veg fyrir hliðrun skattstofna milli skattalögsögu ríkja. Í framhaldinu kom það sjónarmið fram að eðlilegt væri að gera vægari kröfur til innlendra aðila sem eingöngu ættu í viðskiptum við tengda innlenda aðila eða innlenda aðila sem þeir væru í samsköttun með.

Skilningur meiri hlutans er að milliverðlagningarreglur séu skattasniðgöngureglur sem hafi það meginmarkmið að bregðast við óeðlilegri verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila milli landa en hvati til slíkrar verðlagningar getur skapast vegna ólíkra skattareglna í ríkjum. Þannig geta tengdir lögaðilar séð sér hag í því að verðleggja viðskipti sín á milli þannig að hagnaður innan samsteypu verði til þar sem skattumhverfi er hagstætt. Aðstaðan er önnur þegar viðskipti milli tengdra aðila eiga sér einungis stað innan sama ríkis. Í slíkum tilvikum skapast ekki sami hvati til þess að færa til hagnað með óeðlilegri verðlagningu enda eru lögaðilar hérlendis að jafnaði skattlagðir með sama hætti. Meiri hlutinn telur framangreinda gagnrýni réttmæta og leggur til að nýjum málslið verði bætt við c-lið 3. gr. frumvarpsins þar sem efnislega verði kveðið á um að skjölunarskylda innlendra lögaðila taki aðeins til viðskipta við tengda aðila sem eru heimilisfastir erlendis eða eru með fasta starfsstöð utan Íslands. Þrátt fyrir að lagt sé til að skjölunarskyldan gildi ekki í viðskiptum milli tengdra lögaðila innan lands gilda eftir sem áður um slík viðskipti almennar reglur 3. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, um að verðlagning milli tengdra lögaðila eigi að vera í samræmi við armslengdarregluna.

Auk framangreinds eru lagðar til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins og breyting á fyrirsögn þess. Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á þskj. 1040.

Undir álitið rita Frosti Sigurjónsson formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Vilhjálmur Bjarnason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Pétur H. Blöndal og Willum Þór Þórsson og Guðmundur Steingrímsson ritar undir með fyrirvara.

Þá hef ég gert grein fyrir nefndarálitinu en sný mér nú að því að gera grein fyrir fyrirliggjandi tillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd sem er breytingartillaga við breytingartillögu á þskj. 1040 um tekjuskatt o.fl.

Breytingartillagan liggur fyrir á þskj. 1382. Tillagan gengur í stuttu máli út á að draga til baka fyrirhugaða lækkun á þeim hluta tekna af almennu tryggingagjaldi sem rennur til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Aðeins í söguna um þetta ákvæði: Fyrir gildistöku laga nr. 125/2014, um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015, runnu 0,325% af tekjum til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði. Með samþykkt laganna var ákveðið að frá og með 1. júlí nk. lækkaði þetta hlutfall í 0,260%. Hér er lagt til að horfið verði frá þessum breytingum á ráðstöfun tekna af almennu tryggingagjaldi sem rennur til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða þannig að áfram muni 0,325% tekna af almennu tryggingagjaldi renna til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða.

Lagt er til að breytingin öðlist þegar gildi og jafnframt er lögð til breyting á fyrirsögn laganna þannig að við upptalningu á lögum sem breytast bætist lög um tryggingagjald.

Eins og áður er komið fram er þessi breytingartillaga flutt af öllum nefndarmönnum.

Tillagan er lögð fram í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí sl. um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga kemur eftirfarandi fram:

„Stjórnvöld munu beita sér fyrir því að draga til baka þá ákvörðun sem tekin hefur verið um lækkað framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Tengist sú ákvörðun áformum um breytingar á tryggingagjaldi. Áframhaldandi jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða er mikilvæg en æskilegt er að finna fyrirkomulag sem byggir á skýrum hlutlægum forsendum, sem er sjálfbært og ekki háð framlögum á fjárlögum.“

Mig langar líka að rifja upp að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir 3. umr. um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015 bendir meiri hlutinn á að nauðsynlegt sé að endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði eigi sér stað hið fyrsta. Það er mín skoðun að verði þessi breytingartillaga samþykkt þurfi að fara í markvissa vinnu varðandi framtíðarfyrirkomulag við jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóðanna þar sem tekið er á fortíðarvanda sjóðanna og horft til framtíðarfyrirkomulags um jöfnun á örorkubyrði.