144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það síðasta sem ég ætla að gera er að standa í vegi fyrir haftamálunum, bara svo að það sé sagt. Ég held hreinlega að meiri hlutinn, að stjórnarherrarnir, sé jafnvel í einhverju plotti og sé að reyna að æsa þingið upp, með því að funda ekki, funda seint og um síðir, vera ekki með neitt umræðuefni, engar lausnaleiðir.

Vilja þeir koma og ræða haftamálið við þingið í uppnámi til að geta kennt minni hlutanum um að vera ekki samvinnuþýður, eða hvað? Þetta er orðið svo stórskrýtið andrúmsloft að maður er farinn að trúa öllu upp á alla. Það er ekki gott. Traustið í samfélaginu er ekki mikið fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að fundi verði slitið, að við flytjum inn forseta (Forseti hringir.) sænska þingsins eða danska þingsins, einhvern sem hefur reynslu af því að láta (Forseti hringir.) fólk tala saman. (Gripið fram í: Heyr.)