144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við höfum verið að ræða dagskrá þingsins hér undanfarið og við í stjórnarandstöðunni höfum haft af því nokkrar áhyggjur að komið sé með eins mikilvægt mál og losun hafta inn í það átakaandrúmsloft sem er hér á þingi. Mér finnst, herra forseti, að dregið hafi verið fram með mjög skýrum hætti hvar vandinn liggur hjá þinginu, hvar átakalínurnar eru og hverjir halda uppi þeim erfiðleikum sem við glímum hér við. Hér kemur hv. formaður atvinnuveganefndar, þar sem tvö helstu ágreiningsmálin eru sem ekki er enn búið að semja um. Hann er með hnefann á lofti og kallar fólk illum nöfnum og ber sakir á fólk. Það finnst mér, herra forseti, vera svo skýrt dæmi um hvað við (Forseti hringir.) búum við hér á þingi og inn í hvaða andrúmsloft við drögum losun hafta, (Forseti hringir.) sem er stórkostlegt hagsmunamál okkar allra og þjóðarinnar.