144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna um þau tvö frumvörp sem hér eru undir um stöðugleikaskatt og breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Þetta hefur verið áhugaverð umræða í dag og margt komið fram og hér hefur verið farið yfir ákveðna sögu í þessum málum sem er orðin ansi löng eins og hér kom síðast fram, ein sjö ár síðan þessi áætlun hófst um afnám gjaldeyrishafta.

Ég vil segja það líka að mér hefur fundist umræðan á köflum vera með þeim hætti að það er eins og ekkert hafi gerst nema þegar höftin voru sett á og síðan ekki söguna meir fyrr en þessi ríkisstjórn tók við. Auðvitað er það ekki viðeigandi þegar verið er að brigsla þingmönnum og ráðherrum síðustu ríkisstjórnar um að gefa banka og siga vogunarsjóðum á heimili og fjölskyldur og fyrirtæki í landinu eins og hér hefur verið gert ítrekað á þingi. Ég var nú bara að rifja það upp þegar þessi uppákoma varð eftir hádegi í dag hvað fjármála- og efnahagsráðherra sagði þegar ég var að ræða við hann í óundirbúnum fyrirspurnatíma um lánshæfismat og traust. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp eins og eina setningu þar sem hæstv. ráðherra brást svona við:

„Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað þingmaðurinn er að fara í þessari umræðu, ég verð bara að játa það. Ég ætla að vona að þingmaðurinn sé ekki að láta reka sig hingað upp í ræðustól af stórum umsvifamiklum kröfuhöfum sem lýstu því yfir í viðtali við Reuters núna að við værum að dragast aftur úr miðað við þá þróun sem hv. þingmaður lýsir, og fór að líkja okkur við ríkin í sunnanverðri Evrópu, sem er auðvitað tómt rugl.“

Strax og farið er að gera einhverjar athugasemdir eða spyrjast fyrir um hin eðlilegustu mál þá eru gerðar athugasemdir með þessum hætti sem mér finnst ekki viðeigandi, hvorki þá né nú.

En það er ágætt að fara aðeins yfir tímalínuna og byrja á því þegar gjaldeyrishöftin voru sett á í nóvember 2008 eftir hrunið sem var bein afleiðing af þeirri efnahagsstefnu sem var búin að vera hér við lýði í allt of mörg ár og hér fer fjármálakerfið á hliðina eins og reyndar víða annars staðar og við verðum nánast gjaldþrota þjóð. Fyrst er að nefna inngrip Seðlabankans 10. október 2008 eins og við þekkjum, en það er kannski fyrst þegar Lehman Brothers sækir um greiðslustöðvun að hrikta fer í stoðum út um allan heim eins og við munum og á svipuðum tíma eru íslensku fjármálafyrirtækin á niðurleið og 25. september 2008 leitar Glitnir til stjórnvalda. Við þekkjum söguna og hvernig hún var fyrir áramótin þetta ár. En það er 28. nóvember 2008 sem gjaldeyrishöftin eru sett á. Það er áhugavert að rifja það upp og þó að það hafi verið gert þá ætla ég að gera það aftur og rifja upp hverjir það voru sem gerðu það. Það var næturfundur í þinginu vegna þessara válegu atburða og þá voru þessi gjaldeyrishöft sett. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór einmitt yfir það hvað gerðist, hvers konar staða þetta var. Við þurftum að raða niður forgangsatriðum eins og að eiga fyrir lyfjum og olíu og fleiru sem þjóðin hefur kannski aldrei staðið frammi fyrir að geta ekki gert ráð fyrir því að kaupa. Síðan eru höftin hert til muna 1. apríl 2009. Þá er það hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem þá var fjármálaráðherra sem mælir fyrir frumvarpi um það og hann segir um það, með leyfi forseta:

„Breytingarnar fela í sér að nýju bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um gjaldeyrismál sem kveði á um að útflutningsviðskipti vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Samhliða er lögð til breyting á tollalögum sem felur í sér að á útflutningsskýrslu skuli viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli. Lagt er til að breytingarnar verði tímabundnar til 30. nóvember 2010 sem er sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.“

Þarna er verið að koma í veg fyrir að útflytjendur komi sér hjá skilum á gjaldeyri. Frumvarpið er samþykkt við lokaatkvæðagreiðslu rétt fyrir miðnætti 31. mars 2009. Það var samþykkt með atkvæðum 31 þingmanns, 21 þingmaður greiddi ekki atkvæði, þ.e. Sjálfstæðisflokksins, 11 voru ekki viðstaddir fundinn. Hér hefur auðvitað verið farið aðeins yfir þessa sögu að þeir hinir sömu og standa kannski frammi fyrir því nú að geta byggt á þeim ákvörðunum sem teknar voru greiddu ekki atkvæði með þeim og eins og hér hefur verið rifjað upp af og til í dag er sú staðreynd að slitabúin voru læst inni í hagkerfinu árið 2012 í mars og tekin inn fyrir höft í rauninni forsenda þess að hér var hægt að leggja á þessa skatta og hægt að fara með málið í þann farveg núna. Hér hefur einmitt verið rakið mikilvægi þessa og þáverandi fjármálaráðherra sem ég vitnaði til áðan hefur játað það að hann hafi ekki einu sinni sjálfur gert sér grein fyrir því hversu ótrúlega miklu máli þetta skipti. Það vissu allir að þetta skipti máli, en kannski höfum við öll áttað okkur á því síðar hversu miklu þetta skipti.

Það var líka þá sem þverpólitísk nefnd sendi bréf á formenn flokka um að fjármagnshöftin yrðu gerð ótímabundin. Þá lá ljóst fyrir að við sæjum það ekki fyrir hvenær hægt yrði að aflétta þeim miðað við stöðuna eins og hún var þá.

Í ágústbyrjun 2009 má segja að fyrsta áætlunin um afnám gjaldeyrishafta sé kynnt. Svo er það í lok október sem fyrsta skref að afnámi gjaldeyrishafta er tekið og Seðlabankinn kemur fram með langtímaáætlun og segir að hún endurspeglist í ríkisfjármálunum ásamt fjárlagafrumvarpinu þar sem lagt var upp með mikið aðhald sem mundi skapa rými fyrir stöðugra gengi krónunnar. Fyrsta endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fór fram þannig að Seðlabankinn hafði aðgang að auknum gjaldeyrisvaraforða sem við vissum að var þörf á þá.

Ég ætla að klára að fara yfir söguna. Sú þverpólitíska nefnd sem var að störfum hér eins og hér hefur verið rifjað upp var vissulega þverpólitísk og hún hafði eitthvað um málin að segja. Hún vann vinnu sem skipti verulegu máli en var ekki eins og sú sem var sett af stað í tíð þessarar ríkisstjórnar, sú nefnd var í rauninni bara eins og áheyrnarfulltrúi þar sem fulltrúum flokkanna gafst tækifæri á því að hlýða á tilteknar upplýsingar en liðsinntu ekki í raun stjórnvöldum um heildræna lausn sem nú hefur svo litið dagsins ljós. Þannig að í sjálfu sér voru þessar nefndir mjög eðlisólíkar. Ég sat í þeirri seinni til að byrja með og mér fannst það afskaplega gagnslítið, kannski vegna þess að maður hafði gert ráð fyrir því að þátttakan yrði meiri.

Síðan er það í júlí 2014 sem búið er að semja við ráðgjafa um vinnu vegna losunar fjármagnshafta sem var, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir, hluti af því sem fyrri ríkisstjórn gerði líka. Þó að það þurfi í sjálfu sér ekki að metast um þessa hluti þá er ágætt að sögunni sé haldið til haga. Eins og hér hefur komið fram þá settum við þessi höft á saman og því er mikilvægt að við losum þau líka saman. Ég held að það verði ekki ofsagt, af því að hér hefur verið talað mikið um væntingastjórnun í framhaldi af þessum málum, að landinn haldi ekki að nú séum við komin úr viðjum hafta og hér geti allt blómstrað frá og með morgundeginum með flæðandi peningum. Það er afar mikilvægt að haldið verði mjög vel á spilunum. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra komast mjög vel frá því í ræðu sinni og vona svo sannarlega að það standi að menn verði á varðbergi og fjármunir fari mjög takmarkað í umferð og verði nýttir í niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs fremur en allt annað eins og kemur fram í frumvarpinu. En það má velta því fyrir sér hvenær við getum talað um það og rökstutt það að efnahagurinn sé kominn af stað, hvenær hruni lýkur og hvenær uppbygging hafi hafist. Ég lít svo á að uppbygging hafi hafist í rauninni strax eftir ríkisstjórnarskiptin á síðasta kjörtímabili þegar fólk hófst handa við það að takast á við þann vanda sem staðið var frammi fyrir. Efnahagsreikningar ríkissjóðs sýna það auðvitað og það kemur m.a. vel fram í ríkisfjármálaáætlun sem hefur verið hér til umfjöllunar og í fjárlagafrumvarpi þegar dregnar eru upp myndir undanfarinna ára að hægt og sígandi hefur landið risið eins og gjarnan er sagt. Allt þetta er undirbygging fyrir því að við stöndum hér í dag og getum rætt þetta mál sem er afskaplega gleðilegt.

Þannig að ég held að það sé gott að við höldum þessu öllu til haga. Það er líka ágætlega rakið hér á bls. 12, 13 og 14. Þess vegna er það svolítið merkilegt þegar fólk hefur einhvern veginn ekki viljað kannast við að verið sé að byggja á því sem áður var gert, en það er ágætlega rökstutt hér í kafla 2.4 um undirbúning að losun fjármagnshafta og um áætlanir um losun hafta frá því 2009 sem ég var að vitna til og 2011 þar sem vitnað er til að ríkisstjórnin hafi þá samþykkt nýja áætlun um losun hafta. Þar kemur fram að eftirfarandi þjóðhagsleg skilyrði þurftu að vera til staðar fyrir losun hafta, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi að þjóðhagslegur stöðugleiki, fjármálastöðugleiki og nægilegur gjaldeyrisforði væri tryggður. Í öðru lagi að afgangur væri af viðskiptum við útlönd, gengi krónunnar væri ekki undir lækkunarþrýstingi ásamt því að verðbólga væri við markmið sitt. Í þriðja lagi þurfti ríkissjóður að halda áætlun um afgang og aðgangur hans að erlendum lánsfjármörkuðum að vera til staðar. Í fjórða lagi þurfti fjármálakerfið að ráða við lausafjáráhrif vegna losunar hafta og bankarnir að hafa aðgang að traustri fjármögnun.“

Í kafla 2.4.2 er farið yfir framvinduna 2013–2015, þ.e. eftir að ný ríkisstjórn tók við. Þetta er ágætlega rakið, virðulegi forseti, í frumvarpi um stöðugleikaskattinn. Það er því svolítið sérstakt að menn, sumir hverjir, eigi erfitt með að ræða það.

Það eru auðvitað ýmsir áhættuþættir við losun hafta. Það er meðal annars talað hér um greiðslujöfnunarvanda. Ef gengið lækkar mikið getur það raskað bæði verðstöðugleika og stöðugleika fjármálakerfisins og vitnað í það að ef Seðlabankinn mundi nota forðann til þess að koma í veg fyrir áhrif á gengi þá mundu skuldir hins opinbera auðvitað aukast og þá Seðlabankans um leið. Það er því að mörgu að hyggja eins og ég sagði og þarf að fara mjög varlega.

Hér hefur mikið verið talað um stöðugleikaskilyrði. Þau eru rakin hér í nokkrum liðum í kafla um nauðsyn og markmið stöðugleikaskattsins og í lið 3.2 kemur fram — og það er ágætt að rifja það upp í tengslum við loforð Framsóknarflokksins fyrir kosningar um niðurfærslu skulda heimila — að tilgangur skattsins sé ekki að afla ríkissjóðnum tekna til þess að standa undir útgjöldum heldur að draga umtalsvert úr áhættunni sem felst í slitum búanna og treysta þannig efnahagslegan stöðugleika. Það var ekki sagt fyrir kosningar, fyrir kosningar var sagt að þetta væru peningarnir sem ætti að nota til skuldaniðurfærslu heimilanna. Það er auðvitað ábyrgðarhluti hvernig farið er með þessi mál. Þess vegna er kannski óábyrgt að orða þetta með þeim hætti því þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að eitthvert rými skapist í ríkisrekstri til framtíðar með niðurgreiðslu skulda sem lækki vaxtabyrði þá var þetta samt sem áður ekki kynnt þannig fyrir kosningar. Ég held að það sé gott að fólk átti sig á því ef til kemur að þessi skattur verður greiddur, þ.e. hjá þeim sem ekki taka nauðasamning, af því það er líka mikilvægt að átta sig á því að skatturinn verður lagður á þá sem ekki fara í nauðasamninga. Nú þegar hafa stærstu aðilarnir gefið það til kynna að þeir ætli að nýta sér nauðasamningsleiðina og það er mjög ítarlegar upplýsingar að finna á heimasíðu ráðuneytisins um það. Ríkissjóður mun nýta þann skatt sem og ef innheimtist til þess að greiða niður skuldabréfið sem var gefið út til handa Seðlabankanum og það mun væntanlega líka gerast í gegnum nauðasamningana þannig að það verði ekki mikið af auknu peningamagni í umferð. Síðan verður öðrum þeim tekjum sem ríkissjóður hefur af skattinum ráðstafað á sérstakan innstæðureikning í Seðlabankanum, eins og kemur fram á bls. 23, þar sem ekki er hægt að útiloka sviptingar í peningamagni í umferð og lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja á meðan á uppgjöri búanna stendur og greiðsla skattsins á við sem lýkur seinni partinn á seinna ári.

Það er því afar mikilvægt að fólk átti sig á því að ekki er gert ráð fyrir því að þetta fjármagn fari beint inn í hagkerfið eða annað. Því miður hefur líka komið fram í dag hvaða stefnu ríkisvaldið hefur, og er væntanlega stefna beggja aðila þótt maður hefði talið það vera stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem tilkynnir um skattalækkanir strax á þessum degi sem málið kemur fram. Það veldur auðvitað vonbrigðum því það er búið að fara ágætlega yfir það hér að þetta er ekki rétti tíminn til þess. Á sama tíma verður ekki haldið og sleppt, ef rými skapast þá er augljóst að ekki verður bæði hægt að framkvæma alla þá hluti sem við þurfum á að halda og lækka skatta sem kemur gjarnan þeim efnameiri betur en þeim efnaminni. Ég fór aðeins yfir það í störfum þingsins fyrr í dag að sú stefna hefur verið hrakin, brauðmolakenningin, og vitnaði til ágætra úttekta hagfræðinga erlendis um það og mikillar og góðrar rannsóknar og náttúrlega hafa margar slíkar sýnt það og sannað. Þannig að um leið og lækka á einhverja skatta á almenning verður tæplega hægt að ráðast í innviðauppbyggingu hvort heldur það er í heilbrigðis-, menntamálum eða samgöngumálum. Það er miður að það hlakki svo í mönnum og þeir séu svo óskaplega glaðir að jaðrar við ákveðið kæruleysi að setja svona upplýsingar fram.

Þegar maður rifjar upp söguna, sérstaklega varðandi það hvernig menn töluðu í kosningabaráttunni, þá er hægt að rekja það mjög ítarlega. Það er til mjög víða það sem forustumenn þessarar ríkisstjórnar segja, t.d. sagði forsætisráðherra í setningarræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins í byrjun febrúar 2013, þar sem hann fjallaði um það verkefni sem við höfum verið að fjalla um hér, að það gerðist ekki nema með samkomulagi við kröfuhafa. Hér hafa þeir báðir ítrekað verið spurðir um hvernig það gengi og ef ég kem inn í þessa ræðu forsætisráðherra, með leyfi forseta, þá sagði hann þarna að hann væri á móti því að gömlu bankarnir fengju að klára nauðasamningana. Sagði hann að megnið af kröfunum á hendur íslensku bönkunum væri ekki lengur í eigu þeirra sem töpuðu gríðarháum upphæðum á að lána íslensku bönkunum fjármagn. Þær hefðu verið keyptar af vogunarsjóðunum sem í flestum tilvikum hefðu hagnast gríðarlega á þeim. Hann taldi sem sagt að þeir stefndu íslensku efnahagslífi og heimilum og fyrirtækjum í voða og vildi taka á þessu af mikilli festu. Við höfum heyrt talað um gjaldþrotaleið í því sambandi. Fjármálaráðherra sagði í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin án þess að taka á gömlu bönkunum. Þeir yrðu að þola það, erlendu kröfuhafarnir, að kröfurnar yrðu verulega afskrifaðar til þess að skapa grundvöll fyrir afnámi gjaldeyrishafta. Við þekkjum líka söguna, eins og ég var að rifja upp áðan, um skuldamál heimilanna, niðurgreiðslu og kosningaloforð og það var auðvitað það sem fyrst og fremst skilaði forsætisráðherra í þann stól sem hann situr í í dag, það var fyrst og fremst út á það orð sem mjög gjarnan var notað, þ.e. orðið hrægammasjóðir. Við vitum það sem hér erum inni að það eru ekki þeir, ekki enn þá, sem eru að borga þetta kosningaloforð.

Við munum það líka að forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu það ítrekað að þetta ætti ekki að taka langan tíma, þetta yrði fljótgert og á næstu dögum mundu menn stíga fyrstu skrefin o.s.frv. Svo þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn og standa frammi fyrir veruleikanum þá átta þeir sig kannski á því að þetta er öllu þyngra í vöfum og ber að fara varlega og sem betur fer varð raunin sú að menn gerðu það. En þrátt fyrir það þá töluðu þeir nú fjálglega fyrir kosningar um þetta og það endurspeglast kannski svolítið í því að afneita því sem gert var á síðasta kjörtímabili eins og ekkert hafi verið gert eða að fólk hafi haft einhverjar annarlegar hvatir eins og stundum hefur komið hér fram og ég las nú upp áðan dæmi um slíkt þar sem fjármálaráðherra var í samtali við mig.

Virðulegi forseti. Það vakna auðvitað nokkrar spurningar þegar við ræðum þessi mál og ég held að þeim verði kannski svarað þegar málið gengur til nefndar. Það er þá helst stöðugleikaframlagið. Á glærunum sem voru sýndar í Hörpu kemur ekki svo djúp greining fram og ég vona að efnahags- og viðskiptanefnd reyni að kafa svolítið ofan í það, því þetta er eitt af því sem við þurfum að vita og hafa alveg á hreinu. Marga af þeim þáttum sem þarna eru undir þurfa menn að vera með alveg skothelda og vita að hverju þeir eru að ganga, hvort sem það er í skilyrtum skuldabréfum eða endurfjármögnun lána eða afkomuskiptasamningum eða hvað það nú er. Eins er það talan sem hér hefur verið nefnd, 400, 500 milljarðar kr., hún er einn af þessum óvissuþáttum. Það er gert ráð fyrir þessu en það þarf að reyna að byggja undir þetta og vita hvað er líklegt að endurheimtist og hvað er fast í hendi. Að einhverju leyti má væntanlega sjá það ef þessir nauðasamningar verða samþykktir sem hafa birst okkur nú þegar. Ég held að nefndin þurfi að spyrja mjög agressífra spurninga til þess að þetta verði vel undirbyggt og við séum öll á sömu blaðsíðu. Það má til dæmis velta því fyrir sér um hvaða kröfur ríki mest óvissa. Lætur ríkið eða ESÍ einhverjar kröfur af hendi vegna stöðugleikaframlagsins? Tilteknar kröfur sem Seðlabankinn fær framseldar eru gefnar upp á nafnvirði, eru þær reiknaðar þannig inn í stóru töluna sem hér er gefin upp eða eru það áætlaðar endurheimtur o.s.frv.? Það eru margar slíkar spurningar sem ég held að nefndin þurfi að svara. Ég vonast til þess að þegar við komum til 2. umr. verði málið enn betur undirbyggt.

En ég segi eins og flestir sem hér hafa talað að auðvitað fagnar maður því að við erum komin þó þetta langt og getum farið að losa um höftin og eins að lífeyrissjóðirnir og aðrir aðilar fái að fjárfesta. En þá má líka velta því upp: Hver ákvað 10 milljarða töluna gagnvart lífeyrissjóðunum um erlenda fjárfestingu? Hvað býr þar að baki? Það má vel vera að það sé rökstutt einhvers staðar en það er ekki að finna hér, ég hef að minnsta kosti ekki rekið augun í það. Við þurfum að skoða þetta vel þannig að þegar við tökum málið til 2. umr. séum við með það mjög vel undirbyggt af því að við viljum jú öll standa vel að þessu. Þetta er mikilvægt mál og nauðsynlegt til þess að atvinnulífið, líka einstaklingar en sérstaklega atvinnulífið, þrífist hér almennilega.