144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og samningar um þinglok.

[10:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er sannarlega sérstök staða sem við erum í í þinginu. Ég er viss um að forseti veltir því fyrir sér eins og sú sem hér stendur hvaða skilaboð það eru sem framkvæmdarvaldið sendir okkur hv. þingmönnum með því að mæta ekki í óundirbúnar fyrirspurnir fyrr en seint og um síðir og þá kemur forsætisráðherra of seint og utanríkisráðherra mætir ekki. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra var mætt hér á réttum tíma, eins og sjálfsagt er. Það vekur líka athygli að um leið og þingmenn fara að kvarta undan þessu, eðlilega, stekkur hæstv. forsætisráðherra úr salnum. Ég bið hæstv. forseta að fara yfir það með hæstv. forsætisráðherra af hverju hann lætur svona við þingið, þessa elstu (Forseti hringir.) og merkustu stofnun samfélagsins. Hvernig lýsir þetta stöðunni á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins?